Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Við þjóðaratkvæðagreiðslu skyldi horfa til sögunnar.

Axel Þór Kolbeinsson skrifar á bloggsíðu sína:

 

Þegar til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur um stór mál sem hafa í för með sér varanlega breytingu á stjórnskipulagi þjóðar er eðlilegt að líta til þeirrar síðustu.

Síðasta þjóðaratkvæðagreiðsla um málefni sem breytti stjórnskipulagi á Íslandi var þjóðaratkvæðagreiðslan um afnám sambandslaganna frá 1918.  Í 18.gr. þeirra laga er farið yfir þau skilyrði sem þurfti svo sátt gæti verið um svo stórt og víðtækt mál...

 

Smellið hér til að lesa meira.

 

 


Aðildarviðræður við ESB mundu rýra traust á Íslandi erlendis

Eftir Friðrik Daníelsson

 

Líklegt er að í aðildarsamning við ESB fengjust tímabundnar undanþágur eða aðlögunartími að ýmsum kvöðum sambandsins. En til frambúðar litið munu lög og reglur ESB gilda hér sem annars staðar í sambandinu. Ísland kæmi ekki lengur fram sem fullvalda ríki, hvorki gagnvart eigin þegnum né í samskiptum við aðrar þjóðir, s.s. í samningum um sameiginlega fiskstofna eða viðskiptsamningum við önnur ríki. Hinn nýi fríverslunarsamningur sem Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss (EFTA) hafa nú gert við Kanada mundi til dæmis falla úr gildi, en hann markar tímamót í nýþróun viðskiptasamninga okkar við Vesturheim sem hafa setið á hakanum árum saman en eru forsenda þess að Ísland geti verið í fararbroddi í tækni- og atvinnuþróun.

Auðlindir nýttar fyrir ESB

ESB þróast í átt að bandaríkjum þar sem völd yfir auðlindum aðildarríkja eru að færast til miðstjórnarkerfis sambandsins. Fiskimiðin eru þegar undir yfirstjórn ESB og mundu fiskimið Íslands líka færast þar undir með aðild og þau verða nýtt með hag ESB að leiðarljósi. Stærstur hluti teknanna af fiskimiðunum mun þannig með tímanum færast til ESB sem þýðir mikið gjaldeyristap fyrir íslenska þjóðarbúið og mikla hrörnun íslensks sjávarútvegs, sem er gjöfulasta útflutningsgrein Íslands. Svíar eru að missa óskoraðan yfirráðarétt yfir sinni stóru auðlind, skóginum, og ESB hefur þegar forræði á nýtingu sænskra úrannáma. Náttúruauðlindir gömlu heimsveldanna sem ráða ESB eru á þrotum, s.s. málmar, olía og gas. Vaxandi orkukreppa er að þróast í ESB þar sem uppbygging orkuvera hefur verið vanrækt í áratugi og ennþá eru uppi áætlanir um að loka orkuverum. Nú er þó að renna upp fyrir ESB að kjarnorkuvinnsla er eina raunhæfa leiðin til eigin orkuframleiðslu en mestallt nýtilegt úran ESB er í Svíþjóð. Augljóst er að ESB verður annars að auka innflutning jarðefnaeldsneytis og raforku.

Orkulindir á forræði ESB

Ný stjórnarskrá ESB (heitir núna Lissabonsáttmálinn) kveður á um að ESB fái yfirstjórn á orkulindum aðildarlanda sem skulu nýttar í þágu sambandsins. Í grein 100(1) er kveðið á um að ESB muni tryggja afhendingu orku verði skortur á henni í aðildarlöndum. Í grein 176A segir að tryggja skuli virkni orkumarkaðar og öryggi í orkuafhendingu innan ESB. Einnig skulu orkukerfi landanna tengd saman. Þetta þýðir að ESB mun hafa yfirstjórn á hvar og hvernig raforka, olía og gas er afhent. ESB gæti því ákveðið að Ísland verði að afhenda orku til ESB verði Ísland meðlimur. Þetta þýðir til framtíðar litið að hagkvæmir virkjanakostir á Íslandi yrðu nýttir til framleiðslu raforku fyrir ESB. Rafmagnið yrði leitt til ESB gegnum sæstrengi, voru gerðar áætlanir um það fyrir einum og hálfum áratug en voru lagðar á hilluna þá. Árangurinn yrði að frekari atvinnusköpun af orkulindum hér yrði lítil og orkufrekur iðnaður landsins mundi smám saman hrörna. Mögulegar olíu- og gaslindir yrðu sömuleiðis nýttar með hag ESB að leiðarljósi og mikilvægar ákvarðarnir um markaði, stjórnun og skattlagningu færast til ESB.

Aðildarsamningur marklítið skjal

Samningsatriði sem samþykkt eru í aðildarsamningi gætu þurft að víkja fyrir lögum og reglum sem í framtíðinni verða sett af ESB. Með inngöngu í ESB fær sambandið löggjafarvald yfir aðildarlandinu, yfirsterkara valdi landsins, sem þýðir að eftir samningsundirritun geta forsendur hans breyst og þar með efndir. Ágreiningsatriði færu til æðsta dómsvalds sem yrði þá ekki í aðildarlandinu heldur ESB-dómstóllinn sem dæmir að lögum ESB. Bretar sömdu um sérákvæði um sín fiskimið sem voru afnumin með dómi; vinnumarkaðskerfi Svía á nú í vök að verjast, svo dæmi séu tekin. Áhrif Íslands á löggjöf og stjórnvaldsaðgerðir ESB yrðu hverfandi og fengi annar samningsaðilinn, ESB, því í raun sjálfdæmi um efndir samningsins. Aðildarsamningur við ESB yrði ekki samningur tveggja bærra aðila með jafnræði og því marklítill.

Aðildarviðræður mundu rýra traust

Fjárfestar og samstarfsaðilar Íslendinga við nýtingu auðlindanna vita að efnahagur landsins byggist á einkaafnotarétti og fullu forræði þjóðarinnar á þessum auðlindum. Traust þessara aðila á Íslandi þarf að haldast til þess að uppbyggingin geti haldið áfram. Aðildarviðræður við ESB yrðu túlkaðar sem uppgjöf þeirrar stefnu að íslenska ríkið hafi óskoraðan umráðarétt yfir auðlindunum og sem yfirlýsing um að Ísland ætli að gefa frá sér yfirstjórn fiskimiða og orkulinda til erlends yfirvalds. Þetta mundi þýða að erlendir samstarfsaðilar, sem flestir koma frá Vesturheimi en ekki ESB, mundu síður taka þátt í verkefnum og uppbyggingu hérlendis á forsendum Íslendinga. Samningar yrðu erfiðari og ekki að fullu á forræði íslenskra aðila né á grunni íslenskra laga. Ísland nýtur trausts sem rótgróið og friðsælt fyrsta heims réttarríki frá fornu fari, mun rótgrónara en helstu ESB-lönd. Það er ein ástæða þess að erlendir aðilar fjárfesta hér. Skattlagning auðlindanna yrði ekki heldur að fullu á íslensku forræði gengi landið í ESB sem veikja mundi traust á getu íslenska ríkisins til að standa við skuldbindingar sínar.

Höfundur er verkfræðingur.

Birtist í Morgunblaðinu 29. maí 2009

 


Samtök fullveldissinna stofnuð.

Fyrr í þessum mánuði voru Samtök fullveldissinna stofnuð.  Fram að stofnfundi sem fyrirhugað er að halda í Ágúst var útnefnd þriggja manna bráðabrigða stjórn.

Samtökin hafa í hyggju að vinna á pólitískum grunni og stefna að framboði til Alþingis.

Meðal helstu baráttumála er að standa vörð um fullveldi Íslands, breytingar á lagaumhverfi fjármálastofnanna, endurskoðun hagstjórnar, aukin sjálfbærni þjóðarinnar og aukin samskipti við þjóðir heimsins með gerð fríverslunarsamninga og tvíhliða viðskiptasamninga.

Fulltrúar samtakana munu ferðast um landið í sumar til að kynna starf samtakanna og hugmyndir ásamt því að bjóða fólki að taka þátt í starfi okkar og móta sameiginlega grunnstefnu.  Tilkynnt verður um dagsetningar og staðsetningar þessara funda á þessari vefsíðu ásamt því að vefpóstur verður sendur til þeirra sem eru á póstlista okkar.

Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig á póstlista eru beðnir um að senda tilkynningu um það á l.listinn@gmail.com

Einnig er hægt að lesa um hugmyndir okkar í þessari skrá (pdf).

Í aðdraganda þingkosninga

Af gefnu tilefni vill L-listi fullveldissinna taka það fram að listinn styður ekkert þeirra stjórnmálaafla sem eru í framboði til Alþingis, en hvetur stuðningsmenn sína til að taka sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á eigin sannfæringu nú sem fyrr.

L-listi fullveldissinna hefur ekki hætt sinni starfsemi, en hefur haldið sig til hlés eftir að ljóst var að ekkert yrði úr framboði okkar fyrir þessar Alþingiskosningar til að leyfa þeim listum sem fyrirséð var að myndu bjóða fram að koma sínum sjónarmiðum betur á framfæri.  Þeir sem standa að L-lista fullveldissinna hafa í hyggju að vinna áfram sem stjórnmálaafl og grasrótarhreyfing og útiloka ekki framboð í næstu Alþingiskosningum.

Við hvetjum þá sem hafa áhuga að starfa með okkur að gerast bloggvinir okkar, eða senda tölvupóst á l.listinn@gmail.com

 

 


Fréttatilkynningin í fullri lengd

Fullveldissinnar draga
framboð til baka vegna ólýðræðislegra aðstæðna

 

L – listi fullveldissinna mun ekki bjóða fram í komandi Alþingiskosningum. Ákvörðun um þetta var tekin á fundi sem haldinn var í Hafnarfirði í dag, föstudaginn 3. apríl. Hreyfingin mun áfram starfa sem frjáls framboðs- og sjálfstæðishreyfing.

L-listi fullveldissinna treystir sér ekki til að uppfylla þau skilyrði sem ólýðræðislegar aðstæður skapa nýjum framboðum á þessum stutta tíma sem liðinn er frá því ákvörðun var tekin um kosningar. Þaulseta Alþingis fram undir kosningar með allri þeirri athygli sem störf þess fá skipta hér miklu.

Annað sem skiptir máli er sá múr sem 5% lágmark setur nýjum framboðum og krafa um 126 frambjóðendur í sex kjördæmum. Þá skapar opinber fjárstuðningur ríkisins til eldri stjórnmálahreyfinga mikinn aðstöðumun framboða. Síðast en ekki síst vegur þungt hvernig fjölmiðlar hafa hundsað óskir okkar um jafnræði í umfjöllun.

Þegar boðað var til framboðs L-listans var því spáð að bæði Sjálfstæðisflokkur og Vinstri hreyfingin grænt framboð myndu kúvenda í afstöðu til aðildar Íslands að ESB.

Niðurstöður þessara flokka urðu aftur á móti að halda í fyrri stefnur um andstöðu við aðild. Í því er fólginn mikill varnarsigur eftir stórsókn ESB sinna á nýliðnu ári. Svo virðist sem aðildarsinnum hafi um sinn mistekist að nýta sér ótta almennings í fjármálahruninu til að grafa undan fullveldi Íslands. Í bæði Sjálfstæðisflokki og VG var þó gefinn óþarflega mikill slaki gagnvart þeim þjóðhættulegu hugmyndum sem nú ríða yfir að Ísland skuli setjast á kosningavagn Brusselvaldsins.

L-listi fullveldissinna varar við allri tilslökun í þessu máli og hvetur stuðningsmenn sína til að kjósa ekki þau framboð sem hafa beinar aðildarviðræður að ESB á stefnuskrá sinni.

L-listi fullveldissinna þakkar fjölmörgum stuðningsmönnum framboðsins ómælda elju og baráttu og minnir á að barátta smáþjóðar fyrir frelsi sínu og fullveldi er ævarandi.

 

Þórhallur Heimisson

Kristbjörg Gísladóttir

Már Wolfgang Mixa

Sigurbjörn Svavarsson

Bjarni Harðarson

Guðrún Guðmundsdóttir

 

 


mbl.is Hættir við þingframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú getur haft áhrif.

Eins og skoðanakönnun Capacent-Gallup í gær gefur til kynna þá eru allt að 40% kjósenda óákveðnir.  Greinilegt er að kjósendur vilja aðra valkosti en þá sem þeir þekkja.

Þrjú ný framboð hafa gefið það út að þau ætli að bjóða fram í öllum kjördæmum og eitt þeirra er L-listi fullveldissinna.

Í þessum þremur grasrótarframboðum eru miklir möguleikar fyrir að rödd þín heyrist skýrt og hvetur L-listi fullveldissinna kjósendur til að kynna sér stefnumál framboðanna og styðja þau ef þeim lýst vel á þau.

Ef þú vilt starfa með L-lista fullveldissinna eða bjóða fram einhverja aðstoð þá getur þú sent okkur póst á l.listinn@gmail.com.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ísland - Extra Large!

Nú þegar kosningar eru framundan og mesta lægð þjóðarinnar rétt að baki, er fróðlegt, jafnvel hjákátlegt, að virða fyrir sér hringiðu mála.  Búið að kasta burt þeim stórlöxum sem reyndust þegar á hólminn var komið, mest hugsa um sjálfa sig og sinn eigin hag.  Landsfeðurnir reyndust tala tungum tveim (þrem, fjórum, ...) og trompin sýndu sig vera sápukúlur.  Heil þjóð (eða allavega 90% hennar) fékk tröllatrú á kaupmætti sínum og menntunarstigi og æddi fram til að krefjast síns réttmæts hluta heimsins.  Kannski óþarfi að vera að tíunda þetta allt – í ljós kom að ríkidæmið var byggt á meira eða minna raunverulegum ímyndunum og allt gróðærið rann í vaskinn.  Og til að taka kaflaskiptin saman í eina setningu: síðan þá hefur tiltrú fólks á íslenskri stjórnsýslu og gjaldmiðli farið svo hrakandi að flestir vilja skipta hvoru tveggja út: taka upp erlent regluverk og erlenda mynt.  Má vera að sigraðri þjóð sé best að útþurrkast en hér vil ég biðja íslenskum vægðar því við erum sannarlega of góðir að deyja. 

Þessar kosningar sem fara í hönd snúast fyrst og fremst um eitt: hvort við göngum í ESB eða ekki.  Hvaða leiða við leitum til að komast uppúr þeirri efnahagslægð sem við erum í.  Í því gamla kvæði, sem kallað er orðstír okkar, er talað um hömluleysi okkar og græðgi og vera má að einmitt þar liggi orsök þessa hruns landsins.  Þessu komumst við ekki hjá að skoða, að þar standi hnífurinn í krónunni, þar sé vandans að leita.  Að þetta sé hin raunverulega ástæða veiks gjaldmiðils, neikvæðs vöruhalla, erlendrar skuldasöfnunar og verðbólgu.  Eina ástæða þess að ég er með þennan vísi að sálgæslu þjóðar, er að þetta mun ekki breytast neitt við inngöngu í ESB.  Á dögunum ræddi ég við ættingja minn sem sagðist ekki lengur hafa neina tiltrú á íslenskum til að stýra framhjá klíkumyndunum og innétnum ættartengslum, hann hefði gefist upp og nú skyldum við þó þurfa að lúta erlendri stjórn fyrst við hefðum misnotað svona svívirðilega tækifærin okkar.  Menntunin okkar væri þó allavega nothæf til að afla okkur tækifæra erlendis fyrst þau innlendu væri dáin.

Ég vil að við horfum frá þessum hugsunarhætti og horfum fram á veginn.  Ég vil að við tökum höndum saman og sýnum okkur sjálfum og hvert öðru að til sé leiðir þó illa hafi gengið.  Ég vil að við séum menn (og konur) til að horfast í augu við vandamálin og leitum síðan nýrra leiða.  Því ef við leggjumst á bakið og bíðum eftir því að erlendir kastalaherrar bjargi okkur frá því að missa spón úr askinum okkar hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur og kallaði sjálfa sig sjálfstæða?  Við myndum þá í hæsta lagi verða feitir þjónar erlends leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður.

En við skulum leita nýrra leiða og sníða okkur stakk eftir vexti.  Við þurfum einmitt að horfa fram á veginn og sníða okkur stakk eftir þeim vexti sem við viljum öðlast, á flíkum okkar framtíðar stendur einmitt X-L, það sem Ísland þarf.  Þar á frelsið heima.

 

Ragnar Kristján Gestsson.


Varist einangrunarsinna og úrtölumenn

 

Tveir hópar vaða nú uppi með mestu háreisti. Einangrunarsinnar og úrtölumenn. Sumir eru bæði, sumir  bara annað og fáir tala á móti þessu liði.

Einangrunarsinnar birtast okkur í endalausum áróðri fyrir ESB aðild. Líklega er ekkert sem getur einangrað þjóðina jafn illa eins og einmitt að loka sig inni í tollamúrum þeirra þjóða sem standa verst allra í heimskreppunni. Framtíð okkar viðskipta er ekki síst austur og vestur þar sem blasa við tækifæri við hvert fótmál og hnattstaða okkar gefur ótrúlega möguleika á nýrri öld. Möguleika sem við höfum ekki ef við setjum frá okkur réttinn til að gera fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir. Þann rétt hafa aðildarlönd ESB ekki. Svo einfalt er það...

 

Smellið hér til að lesa meira.

 

Grunngildin.

Nú þarf áherslan í þjóðfélaginu að vera á grunngildin.  Grunngildi og grunnatvinnuvegi.  Vinna þarf að því nú að gera þetta að fjölskylduvænu þjóðfélagi. Börn þekkja varla foreldra sína lengur vegna þess að við erum öll svo upptekinn af lífsgæðakapphlaupinu að við gleymum því dýrmætasta sem við eigum, sem eru börnin okkar.

L-listi fullveldissinna vill stuðla að fjölskylduvænna þjóðfélagi.  L-listinn vill einnig stuðla að bættri atvinnustefnu sem felur í sér að efla grunnatvinnuvegina okkar.  Í því felst m.a. að efla fiskvinnslu í landi og fullvinna afurðir.  Við eigum gríðarleg sóknarfæri þar, einnig að efla landbúnaðinn, að búin hafi tækifæri til að vinna sínar afurðir lengra en gert er í dag.  L-listinn hefur fram að tefla fólki sem leggur áherslu á þessi gildi, fólki sem kemur til dyranna eins og það er klætt, stendur og fellur með sínum orðum.

Nú í dag er mjög mikil þörf fyrir fólk sem hlustar á þjóðina og fer að vilja hennar.  Það vill brenna við að þeir sem eru við stjórnvölinn í dag geri bara það sem þeir telja best fyrir þjóðina.  Nú býðst okkur, fólkinu í landinu, loksins að kjósa á þing fólk sem framkvæmir í umboði þjóðarinnar, fólk sem hlustar á hvað þjóðin vill og framkvæmir eftir því.

 

Erla Jóna Steingrímsdóttir


VG vill sækja um ESB-aðild


    Vinstri grænir eru orðnir ESB-flokkur eins og Samfylkingin og
Framsókn. Á RÚV í dag sagði  formaður VG geta  samið  við við
Samfylkinguna um  Evrópumálin. En  sem kunnugt  er  krefst
Samfylkingin að sótt verði um aðild að ESB strax eftir kosningar. 
VG sjá því EKKERT til fyrirstöðu, að samið verði um umsókn að ESB,
enda útilokaði landsfundur VG ekki aðildarviðræður og umsókn
að ESB.  Allt GALOPIÐ í þeim efnum.

   Þetta er afar athyglisvert gagnvart þeim kjósendum VG sem
talið hafa VG til flokks ESB-andstæðinga. Þvert á móti ætlar það
að verða Vinstri grænir sem munu þröngva íslenzkri þjóð inn í
Evrópusambandið, bara til að halda völdum í nýrri vinstristjórn,
fái vinstriflokkarnir til þess fylgi.

   Ekki í fyrsta skipti sem kommúnistar ganga þvert á þjóðar-
hagsmuni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband