Efnahagsstríð

eftir Friðrik Daníelsson

 

 

Þegar eignabólan tók að hjaðna í fyrrasumar grunaði menn ekki að hún mundi springa með hvelli ári síðar og leiða efnahagsáfall yfir heiminn. Ekki grunaði Íslendinga heldur að þeir yrðu komnir í efnahagsstríð í októrber en þann 8. gerðist það að ríkisstjórn hennar hátignar frysti eigur Landsbankans í Bretlandi á grundvelli varna gegn skeggjuðum hellisbúum með sprengjur. Þá var einn banki eftir sem ríkisstjórn hennar hátignar hafði heldur engar vöflur með, hrifsaði hann og seldi góðar eignir hans. Þar með hafði ríkisstjórn hennar hátignar ekki aðeins tekið tvo banka heldur hrakið heilt bankakerfi einnar þjóðar í strand. Ráðherrar hennar hátignar létu líka út ganga að þessi þjóð væri svikótt og í raun komin í þrot. Þetta var ekki hægt að misskilja: Efnahagsleg stríðsyfirlýsing á hendur Íslandi, í trássi við samninga og fjórfrelsi og í andstöðu við lögmál siðaðra manna. Þeim mörgu hérlendis sem virða bresku þjóðina var illa brugðið.

Þetta stríð gæti orðið erfitt og langvinnt eins og fyrri stríð við ríkisstjórn hennar hátignar og þarf að vinda bráðan bug að leita bóta fyrir tröllvaxna eignaspillingu og óhróður hennar. En við erum ekki á vonar völ, eigum enn vini meðal þjóða, auðlindirnar okkar og landbúnað sem tilskipanirnar hafa ekki enn náð að lóga. Og Alþingi virðist einhuga að leiða landsmenn úr hremmingunum. Ríkisstjórnin er sterk og svo vel vill til að forsætisráðherra okkar veit hvað hann er að gera og hrekkur ekki upp úr hjólförunum þótt garmar geyji í hverri gátt.

En það eru ekki bara viðsjárverðir tímar framundan í efnahagnum heldur ekki síður í sjálfstæðismálum. Megum við þar nokkuð af Svíum frændum læra, þeir fengu bankakreppu uppúr 1990 sem leiddi til þess að þeir lentu í ESB, sá gerningur hefur lengi verið í andstöðu við sænsku þjóðina en úr ESB á enginn afturkvæmt. Hér rymja nú raddir um að ganga í ESB enn rámar en áður. Þeir sem það vilja virðast halda að við eigum eitthvað betra í vændum með inngöngu en með EES samningnum við ESB sem hefur leitt okkur til að trúa fyrirheitum um frelsi en endar með að lönd í ESB gera sig sek um stórfellda spillingu íslenskra eigna og mannorðs. Lærdómurinn af efnahagsárás ríkisstjórnar hennar hátignar á Ísland bendir til annars.

 

Höfundur er verkfræðingur.



Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband