Rót vandans

eftir Friðrik Daníelsson

 

 

 Árás Bretastjórnar 8.10. þegar tvö af stærstu fyrirtækjum Íslendinga og bankakerfi voru leidd til aftöku kallar á heildarendurskoðun á samskiptum okkar við ESB-lönd. Rót vandans liggur í samningi við ESB sem kvað á um fjórfrelsi; í flutningi vöru, fólks, þjónustu og fjármagns. Íslendingar héldu að ESB væri alvara með fjórfrelsinu, að íslensk fyrirtæki fengju sama rétt til að starfa í ESB og þarlend. Þetta hefur nú reynst tálsýn. Með fjórfrelsissamningnum afsöluðu landsmenn sér einnig rétti til ákvarðana í eigin málum. Stjórnvöld okkar hættu að hafa vakandi auga með hag landsins enda veigamiklar ákvarðanir komnar í hendur ESB sem sendir okkur tilskipanir sem við höfum ekkert um að segja. Samningurinn, sem 52% Alþingis samþykkti 12.1.1993, kom m.a. af stað útrásinni margfrægu. Við áttuðum okkur ekki á að fjórfrelsið átti aðeins að vera eins og ESB vildi og hefur það hagrætt samningnum að vild (t.d um ábyrgðir á bönkum) til þess að þjóna hagsmunum sinna aðalmeðlima. Samningurinn var í raun fyrirframsamþykki á geðþóttaákvarðanir ESB, ígildi undirskriftar Íslands á óútfylltar ávísanir. Bretastjórn hefur nú fyllt út í þá stærstu hingað til, vill innleysa hana á reikning íslensku þjóðarinnar og vísar í samninginn. Það byggir reyndar aðeins á þeirra túlkun á honum en ekki okkar. Við héldum að fjórfrelsið, þ.á.m. leyfi okkar fyrirtækja til að starfa í friði í ESB, væri gert af heilindum og mundi standa eins og stafur á bók. Útrásarfólk okkar var í góðri trú.

Sem betur fer erum við að mörgu leyti með traustari efnahagsgrunn en lönd ESB þó 8.10.-árásin hafi rekið fjármálakerfið í strand. Við eigum góð fyrirtæki og miklar auðlindir sem við kunnum að nýta, gjaldeyristekjur okkar duga meir en vel fyrir okkar þörfum. Við eigum gjaldmiðil sem við getum notað að vild þó að hann hafi orðið fyrir banatilræði í fjármálamiðstöð Evrópu. Núna getum við t.d. aukið peningamagn í umferð hér innanlands til að koma starfsemi í landinu í eðlilegt horf, það gætum við ekki með annarra manna peningum. Við getum ákveðið sjálf, og með samvinnu við vinveitt lönd, hvernig gjaldeyrisviðskiptum okkar er háttað. Þó að frelsið sé fagurt verður það fjötur þegar það opnar leið óvinveittum ríkisstjórnum eða alþjóðlegum bröskurum að gera árásir.

Við búum langt frá öðrum ESB-þjóðum, okkar lífsbarátta kallar á aðferðir sem mótast af aðstæðum hér. Við þurfum því að ráðast að rót vandans og taka okkar mál í eigin hendur, þannig hefur okkur alltaf gengið best. Lærdómurinn af 8.10.-árásinni verður okkur verðmætari en nemur peningatapinu með tímanum þó að hörmungarnar núna spilli lífi margra. Við höfum áður þraukað aldalöng harðæri og lifað af, þetta harðæri verður stutt þó árásin hafi verið hatrömm.

 

Höfundur er verkfræðingur.


 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband