Kreppulánasjóður?

Margt gott má segja um þau ráð sem gripið er til nú hjá ríkisstjórninni til bjargar heimilunum. En betur má ef duga skal því staðan er skelfileg víða eins og hér kemur fram.

 Ástæðurnar eru margar. Sumir voru komnir í þrot áður en kreppan skall á. Aðrir hafa lent í fjárhagslegum erfiðleikum eftir atvinnumissi. Og enn aðrir eru að kikna undan margföldun skulda sinna vegna vaxtastefnunnar, verðtryggingarinnar eða erlendra lána sem þeir tóku, oft í góðri trú, samkvæmt ráðum ráðgjafa bankanna.

En hvað er hægt að gera frekar til bjargar þeim sem nú eru að missa aleiguna? Fram hefur komið tillaga hjá framsóknarmönnum um flatan 20% niðurskurð skulda allra einstaklinga og fyrirtækja.

Önnur lausn er að skoða stöðu hvers og eins og aðstoða hann og fjölskyldu hans eftir þörfum. Sú leið var farin í kreppunni miklu kringum 1930 hér á landi. Þá var settur á fót svokallaður Kreppulánasjóður. Sjóðurinn keypti eignir þeirra sem ekki gátu staðið í skilum en rak þá ekki burt frá himilum sínum. Þegar batnaði í ári var fólki gert mögulegt að kaupa aftur eignir sínar. Þetta átti til dæmis við um bújarðir víða um land. Ábúendur leigðu jarðirnar og keyptu þær svo smátt og smátt aftur. Þannig hljóp ríkið undir bagga til langs tíma og takmarkaði tap einstaklinga og ríkis.

Nú er ef til vill rétti tíminn til að endurvekja Kreppulánasjóðinn.  Kreppulánasjóðurinn gæti orðið heimilum til bjargar og komið fótunum undir efnahag einstaklinga á ný. Endanlegt markmið væri að ríkið seldi aftur eignirnar til fyrri eigenda. En þar til um hægðist myndi starfsemi sjóðsins skapa illa stöddum heimilum skjól og umfram allt varðveita sæmd einstaklinganna og reisn og eignir.

 

Þórhallur Heimisson

http://thorhallurheimisson.blog.is/blog/thorhallurheimisson/entry/824986/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband