Hugsjónir og þor, L-listinn.

Fólki líður illa og er ekki bjartsýnt á framtíðina. En við verðum að hafa trú á því að hægt sé að breyta, en þá verðum við að hafna því sem ónýtt hefur reynst og byggja nýtt, hafa trú á sjálfum okkur og þora að breyta.

Meðfylgjandi er fengið að láni hjá www.vald.org: "Með hverjum deginum sem líður virðist líklegra að Ísland rísi ekki úr öskunni sem betra land. Glæpsamleg verðtrygging lána og okurvextir sjá til þess að fólkið í landinu—og þá sérstaklega yngri kynslóðirnar—verða rassskelltar duglega á meðan gömlu kerfiskarlarnir og kerlingarnar hreiðra um sig við kjötkatlana og sjá til þess að raunveruleg verðmæti leiti á gamlar slóðir. Verður martröðin að veruleika? Þannig spyr “Vinni” á spjallsíðunni www.malefnin.com og hann heldur áfram:

Hugsið ykkur:

Það er komið sumar og kreppan bítur fast, vonleysi og drungi færist yfir samfélagið og fjölmiðlar eru uppfullir af fréttum af uppsögnum, gjaldþrotum og öðrum hörmungum. Alþingi er í sumarfríi og ný ríkisstjórn er að setjast við kjötkatlana eftir kosningarnar. Þar mun hún sitja næstu 4 árin í ró og næði. Fjórflokkurinn kom nefnilega alveg óskaddaður út úr kosningunum. Sumarið og haustið fer í að raða flokksgæðingum á garðann. Óopinber stjórnarsáttmáli innifelur að ekki megi rugga bátnum um of með því að fara rækilega í saumana á því sem gerðist hér í aðdraganda kreppunnar. Annar stjórnarflokkurinn, eða jafnvel báðir eiga nefnilega nægilegt magn af óhreinum þvotti úr fortíðinni sem ekki má viðra.

Það er mikið líf í kringum stjórnmálaflokkanna sem fengu andlitslyftingu í kosningunum með því að skipta út fáeinum þreyttum andlitum. Þetta mikla líf helgast af því að fyrir liggur sjaldgæft tækifæri fyrir stjórnmálastéttina, áhangendur hennar og velgjörðamenn. Tækifærið felst í því verkefni að endurskipuleggja eignarhaldið á íslandi, bönkum, flestum fyrirtækjum landsins, að ógleymdum náttúruauðlindunum - virkjunum, fiskimiðunum o.s. frv. Oft hefur verið handagangur í öskjunni á Íslandi að komast í gott talsamband við stjórnmálamenn eða til áhrifa innan flokkanna en aldrei sem nú. Enda ekki á hverjum degi sem eignarhald á heilli þjóð er endurskipulagt. Hagsmunaklíkurnar að tjaldabaki eru því allar á hjólum og varla unnt að finna óbrenglaðar fréttir um nokkurn skapaðan hlut í áróðursflóðinu þar sem reynt verður að stýra hugmyndum í réttar áttir; þ.e.a.s þannig að auðurinn renni enn og einu sinni í rétta vasa.

Að sjálfsögðu hefur ekki náðst nein niðurstaða í eflingu lýðræðisins og endurskoðun stjórnarskrár er í nefnd. Nýja Ísland er líka komið í nefnd.

Þetta er martröð – martröð sem getur hæglega ræst.

Fjöldi Íslendinga gerir sér fulla grein fyrir að hér vantar nýtt stjórnmálaafl strax, nýja breiðfylkingu hugsjónamanna sem hefur það eitt markmið að hreinsa út sorann. Þessi fylking þarf að koma 10–15 mönnum á þing til þess að geta veitt nægilegt aðhald áður en landinu verður aftur stolið. Það sem núna blasir við er landflótti unga fólksins og hrikalega misskipt samfélag þar sem valdaklíkan afhendir sjálfri sér allt bitastætt á silfurfati. Svo setningin fræga í Animal Farm sé endursögð og heimfærð upp á nýju ríkisbankana, þá eru allar skuldir jafnar … en sumar skuldir eru jafnari en aðrar. Fáir virðast hirða um myllusteininn sem hangir um háls heimilanna, heldur eru þau eru keyrð betur í kaf á degi hverjum. En þeir sem geta togað í rétta spotta og látið afskrifa hjá sjálfum sér verða kóngar morgundagsins.

Þetta er ekki grunnur sem heiðarlegt og réttsýnt fólk vill byggja á nýtt þjóðfélag.

 

Sigurbjörn Svavarsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband