10.3.2009 | 18:37
Stéttskipting kjósenda og valdhroki fjórflokksins
Fulltrúar gömlu flokkanna fara mikinn yfir að L listinn skuli ekki viðhafa prófkjör, forval eða aðra helgisiði flokksveldisins við röðun á lista. Skilaboðin eru skýr, - framboð má ekki vera án flokksvalds. Eðlilega ógna nýjar hugmyndir alltaf ríkjandi siðum og hugsunarhætti.
Nýjast í þessari umræðu voru ummæli ritstjóra Smugunnar í Kastljósþætti á þá leið að framboð okkar væri ólýðræðislegt vegna þess að hér hefðu bundist saman menn með ákveðna sýn í stærsta deilumáli þjóðarinnar, ESB inngöngunni!
Afbökun lýðræðis
Í flokki þeim sem stendur næst Björgu Evu Erlendsdóttur ritstjóra Smugunnar, VG, er viðhaft forval sem örfá hundruð kjósenda fá aðgang að. Þessir kjósendur hafa í reynd margfaldan atkvæðisrétt á við óbreytta kjósendur og í hendi sér að slátra þingmönnum og jafnvel ráðherrum með 100 atkvæðum til eða frá. Slík urðu nú örlög eins stofnenda VG og vafamál að þar hafi einu sinni þurft 100 atkvæði til að ýta Kolbrúnu Halldórsdóttur út af þingi. Þessir sérstöku og flokksbundnu kjósendur eru með margfaldan atkvæðarétt hinna óbreyttu og flokkslausu.
Við höfum áþreifanlega séð í vetur hvernig flokkarnir telja þingmenn vera sína séreign, afstöðu þeirra eins og hvert annað góss sem hægt er að ráðskast með á á landsfundum og ef það dugar ekki til er beitt ráðherraræði og foringjavaldi. Þessu höfum við á L listanum talað gegn og erum ekki einir í þeim hópi að efast um að stjórnmálaflokkar séu lýðræðislegar stofnanir.
Allir sem þekkja til stjórnmálaflokka vita að þeir vinna eftir úreltu og marglagskiptu þrepalýðræði. Svipað kerfi er notað í stéttarfélögum og nokkrum öðrum miður lýðræðislegum stofnunum. Galli þessa kerfis er að það virkar aldrei neðan frá grasrótinni og upp heldur jafnan ofan frá toppi og niður. Eina leiðin til að tryggja lýðræði með fulltrúakjöri er að hafa þrepið aðeins eitt og kjósendur þannig alla á einum palli. Stéttaskipting kjósenda er eðlilega andstæð lýðræði.
Leið lýðræðisins
En það er fráleitt bæði sleppt og haldið. Við á L listanum getum ekki bæði boðið flokkakerfinu byrgin og búið til nýjan flokk. Við látum ekki hræða okkur til að búa til milliliði milli kjósenda og frambjóðenda. Okkar leið að þessu marki er sú nýbreytni að stofna til framboða án þess að efna til flokksstofnunar. Þar með erum við ekki með það sýndarlýðræði í pípunum sem gerir ráð fyrir forvali nokkur hundruð ofurkjósenda eða fulltrúavali 500 kjördæmisþingsgesta. Við einfaldlega bjóðum okkur fram og leggjum lýðræðið í hendur á þeirri athöfn einni sem stendur undir því heiti að vera lýðræðisleg. Það eru alþingiskosningarnar.
Sá sem hér ritar hefur kjörgengi og hefur á liðnum vetri fengið nokkur þúsund áskoranir um að bjóða sig fram til áframhaldandi þingsetu. Ég hef ákveðið að gera það og við þá ákvörðun beiti ég engan gerræði eða ólýðræðislegum vinnubrögðum eins og ritstjóri Smugunnar reynir að gefa í skyn. Ég mun meira að segja hlífa kjósendum við þeirri áraun sem mikið auglýsinga- og bæklingaflóð er óneitanlega í kjölfar kosninga og hefi ásamt félögum mínum ákveðið að taka ekki við neinum fjárstyrkjum við framboð þetta.
Núverandi kosningakerfi er sniðið að þörfum stjórnmálaflokka og ekki létt verk fyrir einstaklinga að fara fram í þessu kerfi. Eina leiðin til að gera það er að bindast samtökum við aðra einstaklinga í öðrum kjördæmum og við deilum þá með okkur atkvæðum úr uppbótapottinum og komum þannig í veg fyrir að hið flokksvæna kosningakerfi drepi atkvæðum kjósenda L listans á dreif.
Einræðisherrrarnir
Gagnrýnendur L listans hafa mikið gert úr þeirri yfirlýsingu undirritaðs að vitaskuld hljóti oddvitar listanna að hafa úrslitaatkvæði um hverjir sitji á þeim í kerfi sem þessu. Það eru hreinskilin skilaboð og í fullu samræmi við það að listar þessir eru leið okkar til að koma með einstaklingsframboð inn í núverandi kerfi.
Það er aftur á móti mikill útúrsnúningur að þessu úrslitavaldi fylgi að einn maður raði hér upp lista eftir eigin geðþótta. Í öllum tilvikum er um að ræða nána samvinnu samherja þar sem hlustað er á sjónarmið allra. En það eru engar þær atkvæðastofnanir til í flokkslausu framboði til að skera úr um ágreiningsmál. Það er líka mjög vandséð hvernig fámennar innaflokks atkvæðagreiðslur, eins og til dæmis fóru fram í Framsóknarflokki í Reykjavík, tengjast raunverulegu lýðræði.
Allt tal um ólýðræðislega einræðistilburði er þessvegna broslegt og sýnir betur en annað að gömlu flokkarnir óttast hið nýja framboð L listans. Fulltrúi fjórflokksins notar tækifærið og reynir með drýldni að kalla það ólýðræðislegt þegar einhver utan þeirrar elítu vill upp á dekk. Það er dapurlegt og hlusta á slíkan málflutning nú þegar fjórflokkurinn hefur brugðist þjóðinni og gerir samt kröfu um að halda öllum völdum óskertum.
Ólýðræðisleg ESB afstaða!
Hitt atriðið sem Björg Eva Erlendsdóttir nefndi í Kastljósviðtali og fleiri fjórflokkafulltrúar hafa hnotið um er að innan L listans er samstaða um afstöðuna til ESB. Björg Eva Erlendsdóttir vill að L listinn sé eins og Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri Græn og Framsókn með jöfnum höndum ESB sinna og ESB andstæðinga. Síðan ganga kjósendur að kjörborðinu eftir að hafa hlustað á einn af frambjóðendum viðkomandi flokks en lenda alveg óvart í að atkvæði þeirra skolar inn manni með algerlega andstæða skoðun inn á þing.
Hér er lýðræðislegur réttur kjósanda til að vita hvað hann er að kjósa algerlega fótumtroðinn í flokkskerfi sem reynir að þóknast öllum á kjördegi, eiga bland í poka þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi.
Í samstöðu kjósenda L listans í ESB málum er ekki fólgin nein skoðanakúgun enda er L listinn ekki opin stjórnmálasamtök sem t.d. ESB sinnar geta gengið inn í. L listinn er framboðslisti. ESB sinnarnir hafa verið duglegir að leggja undir sig forvalsslagi hjá VG og nálgast meirihluta í bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Ef lýðræðið er raunverulega fyrir kjósendur en ekki hinar furðulegu og óræðu flokksvélar er full þörf á því að kjósendur eigi val kjördag og geti þar kosið með fullveldinu og móti ESB daðrinu. Þar er L listanum einum treystandi.
Persónukjör leysir lýðræðishallann
Eina varanlega leiðin til að leysa lýðræðishallan sem er í núverandi kosningakerfi er svo að koma á persónukjöri en það verður ekki gert með þeirri afbökun að búa til nýjar leikreglur korteri fyrir kosningar. Og allra síst ef þær leikreglur eru þannig að þær frekar útiloka ný framboð eða gera þeim erfiðara fyrir.
Raunverulegu persónukjöri er hægt að koma á í einmenningskjördæmum, í landskjördæmi og með ýmsum öðrum þekktum leiðum. Ef fara á þá leið sem núverandi stjórnarflokkar boða að bjóða frambjóðendum að tefla fram óröðuðum listum þá er lykilatriði að frambjóðendur geti líkt og í prófkjörum flokkanna tilgreint hversu ofarlega þeir vilja fara.
Annars er komið kerfi sem hentar bara hinum gömlu og vel smurðu flokksvélum því engir nema þeir geta átt í handraðanum tugi frambjóðenda sem allir eru til í að setjast í fyrsta sæti ef svo ber undir. Ný framboð eru þar með dæmd til að hafna þessari nýju lýðræðisleið og sú niðurstaða verður síðan notuð gegn framboði þeirra.
Ritstjóri Smugunnar hafði mjög á orði að hún skildi ekki hvað hennar gömlu skólafélagar væru að fara með því að nýta sér rétt sinn til framboðs. Það er von mín að grein þessi skerpi skilning á framboði okkar og við getum notað kosningabaráttuna til að deila um stjórnmál en það sé hér með afgreitt að rétturinn til að bjóða fram sé ekki einkaeign gömlu flokkanna.
Bjarni Harðarson
http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/1218
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook