11.3.2009 | 11:42
Reykjavíkurkjördæmi norður.
L listinn ákvað á fundi í Súfistanum í Reykjavík í gærkvöldi röð efstu manna á listanum í Reykjavíkurkjördæmi norður. Fjögur efstu sæti skipa:
1. Bjarni Harðarson bóksali og fv. alþingismaður
2. Gunnar Kristinn Þórðarson guðfræðingur
3. Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir starfsmaður í Víðinesi
4. Friðrik Daníelsson efnaverkfræðingur
L listinn er nýr valkostur í íslenskum stjórnmálum sem leggur áherslu á nýjar leiðir í endurreisn landsins. Frambjóðendur L listans telja að lýðræðisleg endurreisn sé forsenda þess að hér rísi öflugt land úr þeim brotsjó sem gengið hefur yfir. Forsenda þessa er að Ísland varðveiti fullveldi sitt og að dregið verði úr ægivaldi stjórnmálaflokka yfir lýðræðislega kjörnum fulltrúum á Alþingi. L listinn hafnar alfarið öllum hugmyndum um aðild Íslands að ESB.
Um frambjóðendur L listans:
Bjarni Harðarson er 47 ára bóksali á Selfossi og sat um tíma á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn. Hann nam þjóðfræði og sagnfræði við Háskóla Íslands en hefur lengst af starfað við blaðamennsku og blaðaútgáfu, bæði í Reykjavík og austanfjalls. Bjarni er fjögurra barna faðir og eiginkona hans er Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld.
Gunnar Kristinn Þórðarson er 34 ára guðfræðingur og starfar með fötluðum. Hann hefur starfað lengst af með fólki svo sem geðsjúkum, áfengissjúkum og öldruðum. Gunnar hefur lengi látið þjóðfélagsumræðuna sig varða, með greinasendingum í dagblöðin og með vefsíðunni, landsvarnarflokkurinn.blogcentral.is. Gunnar er einstæður fráskilinn faðir 6 ára stúlku.
Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir er 48 ára starfsmaður í Víðinesi. Hún er samhliða vinnu við nám í félagsliða við Borgarholtsskóla. Guðbjörg hefur lagt stund á hárskeranám og starfaði um árabil á hárgreiðslustofu. Um skeið var hún bóndi í Efra Nesi í Borgarfirði. Guðbjörg er ekkja eftir Ólaf Þ. Þórðarson alþingismann og skólastjóra. Hún á þrjú uppkomin börn en núverandi sambýlismaður Guðbjargar er Einar Óskarsson líffræðikennari.
Friðrik Daníelsson er 61 árs efnaverkfræðingur hjá Vinnueftirlitinu. Friðrik var um skeið framkvæmdastjóri á Iðntæknistofnun og hefur að auki starfað sem kennari á sínu fagsviði og verið í sjálfstæðum rekstri. Hann hefur um langt árabil látið til sín taka þjóðfélagsumræðu með blaða- og bókaskrifum um iðnaðarmál, þjóðfrelsi, umhverfismál og fleira. Friðrik á þrjú uppkomin börn og er giftur Ingibjörgu Benediktsdóttur.
Fjórir efstu menn L listans í Reykjavíkurkjördæmi norður, f.v. Friðrik Daníelsson, Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, Bjarni Harðarson og Gunnar Kristinn Þórðarson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.