Í samkeppni við svikamyllur - í nýjum hring

Hver fréttin rekur nú aðra af raunverulegu gengi íslensku stórfyrirtækjanna. Byr sem greiddi tugmilljarða út í arð á síðasta ári og er nú í tugmilljarða tapi. Baugur er farinn á hausinn og þjóðin sýpur súra skál þess ævintýris og annarra. En samt eru sömu menn að fara í ný ævintýri þeir sem ekki flatmaga á snekkjum sem kosta litlar 25 milljónir í útleigu. Ríkissjóður Steingríms J. gaf Mogganum skrilljónir í stað þess að leyfa honum að fara á hausinn. O.s.frv. o.s.frv.

Árum saman höfum við sem rekum lítil og meðalstór fyrirtæki verið  í miskunnarlausri samkeppni og það hefur oft verið erfitt. Skemmtilegt en oft alveg gríðarlega erfitt. Ég veit að mörgum hefur þótt hlutafélagið mitt sem var stofnað í ársbyrjun  1992 skuldseigt - með afbrigðum skuldseigt á köflum. En það hefur alltaf borgað sitt og gerir enn. Lengst af veitt 4 - 5 og allt upp í 10 manns einhverja atvinnu. Og er einn af þeim heppnu því aldrei tókst að knésetja okkur eins og svo marga.

En sárt þótti mér oft og þykir enn að glíma við það að vera jafnan settur á óæðri bekk í viðskiptum því þeir stóru þurftu aldrei frest hjá lánadrottnum. Þeir áttu svikamyllu. Þeir áttu banka og eiga enn. Penninn sem jafnan hefur fengið bækur afhentar með hraði meðan við þessir litlu bóksalar megum bíða von og viti. Hvar er hann núna,- jú kominn á ríkisframfæri með gjaldþroti eins og allir þessir töffarar. Sem samt halda áfram og stofna nú nýjar svikamyllur í ríkisforsjá.

Töffarar sem undirbuðu allt og alla - rústuðu víða heilbrigðu atvinnulífi með oflæti sínu og senda nú reikninginn til þjóðarinnar.

Nýtt Ísland verður ekki til nema við horfumst í augu við það að allir þessir bankatöffarar hafa farið hraksmánarlega með okkur öll - og ætla sér að gera það aftur ef við ekki stoppum þá. Og svo ég botni þetta,- það kastar tólfunum þegar sömu Exista og Baugstöffararnir standa nú uppi á Viðskiptaþingum og geta sagt okkur hvað er þjóðinni fyrir bestu,- að við eigum að ganga í ESB.

Líklega svo taka megi á okkur annan og annan hring!

(Grein þessi er með vísunum í heimildir sem sjást ef tvíklikkað er á undirstrikaðar línur því sumt er hér með svo miklum ólíkindum að enginn gæti trúað nema sýnt væri með þessum hætti).

Bjarni Harðarson bóksali og blaðaútgefandi um aldarfjórðungs skeið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband