Stefnuyfirlýsing L-lista fullveldissinna

Lýðræði, fullveldi og siðvæðing.

Við viljum endurreisa og efla lýðræðið með framboði frjálsra kvenna og karla sem láta verkin tala máli sinna kjósenda og færa ákvörðunarstað löggjafarinnar úr flokksherbúðum inn á Alþingi sjálft.  L-listi fullveldissinna vill standa vörð um fullveldi, sjálfstæði og þjóðfrelsi Íslands.  Við viljum stuðla að aukinni fríverslun og teljum mikilvægt að Íslendingar haldi sjálfir á rétti sínum til samninga við aðrar þjóðir.  Við höfnum alfarið aðild að ESB.
Við viljum endurskoða stjórnskipan Íslands með nýrri stjórnarskrá sem eflir vald kjósenda og tryggir betur en nú aðskilnað löggjafar og framkvæmdavalds.  Við viljum að Alþingi haldi óskoruðu löggjafarvaldi í landi og lögsögu Íslands.  Við viljum tryggja þjóðareign auðlinda.
Listi fullveldissinna telur brýnt að efla stjórnkerfið með nýjum lögum og reglum þar sem þjóðarhagsmunir, fagmennska og gagnsæi ráða ferð. Í þeim efnum teljum við brýnt að byrja á nýjum íslenskum lagaramma um fjármálastarfsemina.
Við viljum endurreisa hagsmunagæslu fyrir þjóðarheildina, agaða og siðvædda stjórnhætti og nýta bestu sérfræðinga hér heima og á heimsvísu til þeirra verka.


Fjármál ríkis, heimila og fyrirtækja.

Í fjármálum heimila og fyrirtækja teljum við brýnt að tryggja til frambúðar eðlileg vaxtakjör, koma fjármagni í umferð á ný og huga að endurskoðun verðtryggingar.  Við teljum að koma eigi á sjóði sem líkt og Kreppulánasjóður millistríðsáranna leysi til sín tímabundið eignir heimila sem ofhlaðin eru skuldum.
L-listinn telur óraunhæft að skattgreiðendur taki án skoðunar á sig skuldaklafa einstaklinga og fyrirtækja.
L-listi fullveldissinna er talsmaður ráðdeildar og sparsemi í ríkisfjármálum og telur brýnt að mæta erfiðleikum í rekstri ríkisins með endurskoðun gjaldaliða.  Jafnframt teljum við að ef til skattahækkana komi eigi að horfa til þess að þær bitni ekki á hinum tekjulægri hópum og við teljum að skoða beri þrepaskipt skattkerfi.  Listi fullveldissinna vill afnema virðisaukaskatt á matvælum.


Atvinnulíf, þróun og einkavæðing.

Við viljum endurreisa atvinnulífið með arðbærum framkvæmdum, nýtingu auðlinda, nýjungum og eflingu atvinnufrelsis.  Við viljum standa vörð um hagsmuni íslenskra atvinnuvega til að þróast og eflast.  Við teljum brýnt að tryggja hagkvæman aðgang framleiðslugreina í landinu að innlendum orkugjöfum.
L-listi fullveldissinna leggur áherslu á markaðssetningu íslenskrar framleiðslu og hönnunar á alþjóðavettvangi með bættu aðgengi fyrirtækja að fjármagni á viðráðanlegum kjörum sem og vöruskiptum.
Jafnframt teljum við að eignarhald ríkis á fyrirtækjum eigi í mörgum tilvikum rétt á sér en leggjum áherslu á jafnræði, gagnsæi og dreifða eignaraðild þar sem til einkavæðingar kemur.


Lífsskilyrði, hófsemi og jafnræði.

L-listi fullveldissinna byggir málatilbúnað sinn á hófsömum borgaralegum gildum, s.s. vinnusemi, jafnræðishyggju og umburðarlyndi og hafnar ný-frjálshyggju, græðgi og öfgum en berst fyrir menningarsamfélagi og fjölbreyttri menntun.  Við leggjum áherslu á jafnrétti allra þjóðfélagshópa.
Við leggjum áherslu á að tryggja lífsskilyrði íslensku þjóðarinnar, fæði og klæði, heilsu og velferð og stöndum vörð um hagsmuni barnafjölskyldna.  L-listinn vill tryggja velferð og hag íslenskra námsmanna, hér heima og erlendis.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband