Framtíðin í ljósvakamálunum.

Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og  stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.

Ég hef skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi. Svo virðist sem þau mótmæli hafi komið bæði þáverandi stjórnvöldum sem og stjórnendum RÚV ohf algerlega í opna skjöldu.

Hugmyndir mínar byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru sjálfstæðra aðila, sem þrátt fyrir að vera ekki stórir eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.

Ljósvakamiðlarnir eiga að sitja við sama borð hvað varðar framlög frá ríkinu. Einn þessara miðla getur sem best verið í eigu ríkisins, þ.e. RÚV og þá á þeim forsendum að tryggja þurfi öryggi almennings og dreifingu til fjarlægra staða. Ef þessa jafnræðis er gætt þá geta þeir allir verið á auglýsingamarkaði. Framlög ríkisins til ljósvakamiðlanna ættu síðan að vera í réttu hlutfalli við flutning þessara miðla á innlendu efni eða efni sem tengist Íslandi á einhvern hátt. Þessir
miðlar gætu sem best sameinast um rekstur öflugrar og óháðrar fréttastofu eða notið þeirrar þjónustu frá RÚV en haft frjálsar hendur þar fyrir utan. Það er í rauninni skammarlegt að þeir peningar sem innheimtir voru sem afnotagjöld en núna nefskattur séu notaðir til að flytja landanum textaðar erlendar sápuóperur í ríkissjónvarpinu kvöld eftir kvöld svo árum skiptir.

Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að leggja RÚV þær skyldur á herðar að byggja upp starfsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn  þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi.

Flest útvarpsviðtæki sem seld eru á Íslandi í dag eru bara með AM/FM móttöku sem gerir að verkum að langbylgjustöðvarnar eru smátt og smátt að verða úreltar þó sjómenn og ferðamenn noti þær eflaust mikið. En horfa ber á að öflug miðbylgjustöð er líka langdræg og ef hún er vel staðsett þá gætu fjórar slíkar stöðvar trúlega þjónað jafn vel eða betur en gert er með núverandi fyrirkomulagi tveggja langbylgjustöðva.

Ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi á vegum ríkisins. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.

Þegar landið fer að rísa á nýjan leik í efnahagsmálum þarf að stofna ljósvakasafn sem hefur það hlutverk að safna ljósvakaefni sem flutt er á íslensku eða hefur að öðru leyti ótvíræð tengsl við íslenska menningu. Þjóðarbókhlaðan gegnir nú þegar þessu hlutverki hvað varðar prentað mál og ljósvakasafnið yrði því aðeins útvíkkun á sömu hugsun þegar kemur að ljósvakaefni.  Hugsanlega er hægt að fara að athuga þessi mál strax ef vitað er hvert á að stefna.

RÚV yrði þá nokkurs konar þjónustu- og öryggismiðstöð rekin af ríkinu en myndi sjá um rekstur öflugrar fréttastofu þar sem gerðar verða miklar kröfur til menntunar starfsmanna og óhlutdrægni í efnistökum. Þeir myndu einnig vera þjónustuaðilar og sjá um að leigja út efni úr ljósvakabankanum til hinna smærri aðila sem vilja sína til þess að miðla gömlum menningarperlum.

Ef þessar leiðir eru farnar þá gæti landið farið að rísa hjá litlu útvarpsstöðvunum og þær eignast tilverugrundvöll sem annars væri ekki til staðar. Þær gætu boðið upp á prýðilega þjónustu á ýmsum svæðum og byggt upp fjölbreytta og sérstæða en jafnframt sjálfstæða flóru menningar sem ekki er ríkisstýrð þó hún væri ríkisstyrkt að hluta. Fjölbreytt flóra minni en stöndugri aðila ætti líka að stuðla að meiri möguleikum fyrir lýðræðið og þá sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri. Með þessu móti yrði jafnræði gert hærra undir höfði en nú er.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband