12.3.2009 | 10:56
Höfðu Bretar rétt fyrir sér?
Bjarni Harðarson veltir þessu fyrir sér.
Bretar beittu íslenska þjóð miklu harðræði með því að setja hryðjuverkalög á ríkið allt og öll íslensk fyrirtæki. Við þær aðstæður vantaði mikið á að stjórnvöld sýndu þann myndugleika sem þjóðríki þarf að sýna gagnvart slíkum yfirgangi.
En getur það verið að framkoma íslenskra stjórnvalda hafi beinlínis kallað á þessa misbeitingu valds?
Smelltu hér til að lesa meira.
11.3.2009 | 20:29
Einangrunarstefna, afdalamenn og evrópusambandið.
Í dag eru 193 alþjóðlega viðurkennd sjálfstæð ríki og þar að auki ríki sem ekki hafa verið viðurkennd og svo ríki sem eru ekki sjálfstæð eins og t.d. Færeyjar og Grænland. Í Evrópusambandinu eru 27 ríki.
Allir hafa nú þegar heyrt um sameiginlega sjávarútvegsstefnu og landbúnaðarsetefnu ESB, en ekki allir vita af sameiginlegri viðskiptastefnu. Evrópusambandið semur fyrir hönd sinna 27 aðildarríkja um tvíhliða viðskiptasamninga og fríverslun. Eitt af því sem Ísland sem ríki yrði að láta af er sá réttur að semja við önnur lönd um fríverslun, og við inngöngu í ESB þyrftum við jafnframt að segja upp þeim samningum sem við höfum umfram Evrópusambandið.
En hvað er svona mikilvægt við það að geta samið við önnur lönd án ESB? Svarið við því er einfalt ef maður hugsar út í það.
Ísland hefur nú þegar fríverslunarsamninga við Færeyjar og Grænland ásamt þeim löndum sem EFTA hefur samið við sem hópur og svo að sjálfsögðu við ESB í gegnum EES-samninginn. Undanfarið hefur EFTA verið í óformlegum viðræðum við fríverslunarsamtök ríkja í Suður-Ameríku og ýmis lönd við Persaflóa. Ísland hefur verið í sjálfstæðum viðræðum við Kína.
Þessir samningar og aðrir framtíðarsamningar bjóða okkur upp á mikla möguleika. Þar sem við nú þegar höfum aðgang að innri markaði Evrópu, og möguleikann á að gera tvíhliða samninga við lönd sem ESB er ekki tilbúið að gera, eða betri samninga en ESB, höfum við jafnframt möguleika á því að flytja inn vörur frá löndum eins og Kína og fullvinna þær hér á Íslandi. Tökum sjónvörp sem dæmi: Hér gætum við flutt inn alla þá íhluti sem fara í sjónvarpstæki og sett það saman. Þar sem hlutirnir eru fluttir tollfrjálst til Íslands þar sem vinnan er kláruð og flutt héðan tollfrjálst til Evrópu geta fyrirtæki hvort sem þau eru innlend eða erlend nýtt sér bakdyraleið inn í Evrópu. Þetta dæmi er svo hægt að flytja yfir á hvaða vöru sem er, í hvaða átt sem er.
Nú spyr ég þig kæri lesandi; Hvort er meiri einangrunarstefna að ganga í ESB eða hafa þor til að vinna á jafnræðisgrunni með öllum 193+ ríkjum heimsins?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.3.2009 | 11:42
Reykjavíkurkjördæmi norður.
L listinn ákvað á fundi í Súfistanum í Reykjavík í gærkvöldi röð efstu manna á listanum í Reykjavíkurkjördæmi norður. Fjögur efstu sæti skipa:
1. Bjarni Harðarson bóksali og fv. alþingismaður
2. Gunnar Kristinn Þórðarson guðfræðingur
3. Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir starfsmaður í Víðinesi
4. Friðrik Daníelsson efnaverkfræðingur
L listinn er nýr valkostur í íslenskum stjórnmálum sem leggur áherslu á nýjar leiðir í endurreisn landsins. Frambjóðendur L listans telja að lýðræðisleg endurreisn sé forsenda þess að hér rísi öflugt land úr þeim brotsjó sem gengið hefur yfir. Forsenda þessa er að Ísland varðveiti fullveldi sitt og að dregið verði úr ægivaldi stjórnmálaflokka yfir lýðræðislega kjörnum fulltrúum á Alþingi. L listinn hafnar alfarið öllum hugmyndum um aðild Íslands að ESB.
Um frambjóðendur L listans:
Bjarni Harðarson er 47 ára bóksali á Selfossi og sat um tíma á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn. Hann nam þjóðfræði og sagnfræði við Háskóla Íslands en hefur lengst af starfað við blaðamennsku og blaðaútgáfu, bæði í Reykjavík og austanfjalls. Bjarni er fjögurra barna faðir og eiginkona hans er Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld.
Gunnar Kristinn Þórðarson er 34 ára guðfræðingur og starfar með fötluðum. Hann hefur starfað lengst af með fólki svo sem geðsjúkum, áfengissjúkum og öldruðum. Gunnar hefur lengi látið þjóðfélagsumræðuna sig varða, með greinasendingum í dagblöðin og með vefsíðunni, landsvarnarflokkurinn.blogcentral.is. Gunnar er einstæður fráskilinn faðir 6 ára stúlku.
Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir er 48 ára starfsmaður í Víðinesi. Hún er samhliða vinnu við nám í félagsliða við Borgarholtsskóla. Guðbjörg hefur lagt stund á hárskeranám og starfaði um árabil á hárgreiðslustofu. Um skeið var hún bóndi í Efra Nesi í Borgarfirði. Guðbjörg er ekkja eftir Ólaf Þ. Þórðarson alþingismann og skólastjóra. Hún á þrjú uppkomin börn en núverandi sambýlismaður Guðbjargar er Einar Óskarsson líffræðikennari.
Friðrik Daníelsson er 61 árs efnaverkfræðingur hjá Vinnueftirlitinu. Friðrik var um skeið framkvæmdastjóri á Iðntæknistofnun og hefur að auki starfað sem kennari á sínu fagsviði og verið í sjálfstæðum rekstri. Hann hefur um langt árabil látið til sín taka þjóðfélagsumræðu með blaða- og bókaskrifum um iðnaðarmál, þjóðfrelsi, umhverfismál og fleira. Friðrik á þrjú uppkomin börn og er giftur Ingibjörgu Benediktsdóttur.
Fjórir efstu menn L listans í Reykjavíkurkjördæmi norður, f.v. Friðrik Daníelsson, Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, Bjarni Harðarson og Gunnar Kristinn Þórðarson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2009 | 11:36
Kreppulánasjóður til bjargar heimilunum.
MIKLIR fjárhagslegir erfiðleikar steðja nú að mörgum heimilum landsins eftir fjármálahrunið á liðnu hausti. Ástæðurnar eru margar. Sumir voru komnir í þrot áður en kreppan skall á. Aðrir hafa lent í fjárhagslegum erfiðleikum eftir atvinnumissi. Og enn aðrir eru að kikna undan margföldun skulda sinna vegna vaxtastefnunnar, verðtryggingarinnar eða erlendra lána sem þeir tóku, oft í góðri trú, samkvæmt ráðum ráðgjafa bankanna.
En hvað er hægt að gera til bjargar þeim sem nú eru að missa aleiguna? Fram hefur komið tillaga hjá framsóknarmönnum um flatan 20% niðurskurð skulda allra einstaklinga og fyrirtækja. Slíkur flatur niðurskurður er í besta falli óskynsamlegur, í versta falli óréttlátur. Með honum er verið að skera niður skuldir án tillits til stöðu og efnahags viðkomandi. Skuldir margra yrðu færðar niður sem ekkert þurfa á slíku að halda. Og skattborgarar yrðu enn sem fyrr að borga brúsann.
Miklu skynsamlegra er að skoða stöðu hvers og eins og aðstoða hann og fjölskyldu hans eftir þörfum. Sú leið var farin í kreppunni miklu kringum 1930 hér á landi. Þá var settur á fót svokallaður Kreppulánasjóður. Sjóðurinn keypti eignir þeirra sem ekki gátu staðið í skilum en rak þá ekki burt. Þeir voru áfram skráðir með búseturétt. Þegar batnaði í ári var ábúendum gert mögulegt að kaupa aftur eignir sínar. Þetta átti til dæmis við um bújarðir víða um land. Ábúendur leigðu jarðirnar og keyptu þær svo smátt og smátt aftur. Þannig hljóp ríkið undir bagga til langs tíma og takmarkaði tap einstaklinga og ríkis.
Nú er rétti tíminn til að endurvekja Kreppulánasjóðinn. Aðgerðir sem þannig snúa að einstaklingum og þeirra hag munu til lengdar skila betri árangri en flatur niðurskurður. Kreppulánasjóðurinn gæti orðið heimilum til bjargar og komið fótunum undir efnahag einstaklinga á ný. Endanlegt markmið væri að ríkið seldi aftur eignirnar til fyrri eigenda. En þar til um hægðist myndi starfsemi sjóðsins skapa illa stöddum heimilum skjól og umfram allt varðveita sæmd einstaklinganna.
Birtist í Morgunblaðinu 11.3.2009
10.3.2009 | 18:49
Bloggsíða L-listanns opnuð.
Nú hefur bloggsíða L-listanns verið opnuð. Til að byrja með höfum við sett hér inn nokkrar greinar og færslur stuðningsfólks okkar.
Hægt er að lesa nánar um listan með því að smella á um L-listann eða smámyndina af merki listans.
Allt útlit er fyrir að hér verði uppfært með nýjum pistlum reglulega ásamt almennum fréttum af starfsemi listanns.
10.3.2009 | 18:39
Ekki gera ekki neitt "aftur"!
Hvers vegna var ekki hægt að stöðva alla þessa vitleysu strax í október?
Hvers vegna var verið að bíða með þær aðgerðir sem allir hljóta að sjá að eru nausynlegar?
Það eru til lög í landinu sem ná yfir þetta framferði þau lög eru hin almennu hegningarlög ásamt lögum nr.7 frá 1936, lög um samningagerð, umboð og ógilda samninga. Einnig væri hægt að vitna í hlutafélagalögin þar sem ábyrgð stjórnar er markvist skýrð gagnvart hluthöfum og framkvæmdarstóra gagnvart stjórn, ef stjórnarmaður segir af sér störfum lækkar hann ekki eða kemst undan ábyrgð sinni sem stjórnarmaður, það sama á við framkvæmdarstjóra félagsins, það gengur ekki varpað ábyrgðinni á starfsmann félagsins á gerðum framkvæmdarstjórans eða óskráð tilmæli frá stjórn félagsins (sjóðsins).
Ég vill benda á þetta atriði þar sem einn af stjórnarmönnum Seðlabankans virðist ganga það eitt til að ganga úr stjórn sjóðsins til að sýna fram á máttleysi stjórnarinnar, það er bara ekki næganlega ljóst fyrir mér en svo að viðkomandi ætti að axla sömu ábyrgðir og aðrir stjórnarmenn. Hvers vegna bar stjórnarmaðurinn ekki fram tillögu á stjórnafundi um breyttar vinnureglur, til þess er viðkomandi kosinn eða skipaður í þetta embætti en ekki hvað, ekki til að sytja að kaffisumbli með útsýni yfir hið óheyrilega hafnarsvæði reykvíkinga, nema síður sé.
Það er hægt að dæma þessa menn samkvæmt hegningarlögum með því fororði að þeir hafi misboðið sæmdartilfinningu og bligðunarsemi þjóðarinnar, reyndar væri hægt að dæma alla stjórnarmeðlimi fyrir einmitt þessar sakir, getur einhver bent á þann aðila sem ber ekki neina ábyrgði í því máli.
Við höfum lög sem varðar óglidingu samninga sem ég hef rætt áður hér á síðunni sem ég tel að rétt sé að beita gagnvart lánastofnunum, þó sérstaklega þeim sem tóku skortstöðu gagnvar hinum innlenda gjaldeyrir með það að markmiði að hagnast á eigin fjármálasafni sem gerði það að verkum að gengi krónunar féll hér í samræmi við fjórðungs uppgjör allra bankanna þriggja. Þetta tel ég vera landráð sem þessir menn framkvæmdu í hagnaðar skyni, það hlýtur að vera hægt að sjá þetta eins og ég sé þetta þegar ég ber saman afkomutölur bankanna og fall íslenskukrónunar á síðustu tveimur árum, ekki er ég hagfræðingur þó ég sé menntaður á fjámálastjórnunarsviði, þá gefur það mér visst innsæi í þessi fræði en ég er alls ekki að segja að ég hafi ótakmarkaða vitneskjum um þessi mál önnur en þau að þetta gegnur bara ekki upp í mínum þvermóðskuhuga, ég er ætíð til búin að einduskoða allar forsendur þó að ég sé komin að niðurstöðu, því ég lít þannig á mig að ég geti ætíð gert mistök, en með því að endurskoða og meta eldri gögn kem ég æði oft auga á misræmi eða misskilning í mínum hugsunum, og hugleiðingum, það er bara eðlilegt að menn séu tilbúnir að endumeta og skoða fyrri ákvarðanir og upplýsa um þær eða þau.
Ég vona að Ingibjörg Sólrún nái bata í sínum veikindum á næstu mánuðu, en hún viðurkennir að hún hafi verið of veik í raun og veru til að standa í þessu þrasi. Hún segir hreint út að það álag sem hún var undir var henni offviða, það gefur augaleið að hún taki veikinda leyfi frá störfum og hætti tímabundi að starfa í pólitík. Hún var samt sem áður einn aðalmaðurinn í þessu hruni sem var að reyna að koma okkur á réttar brautir, sem sagt hennar veikindi koma til með að kosta þjóðina töluvert mikla fjármuni að ekki var hægt að klára þessa vinnu fyrir áramót, því það þurfti að gera, í dag erum við að missa af þeim tækifærum sem voru í stöðunni. Núverandi stjórnvöld verða hreinlega að knýja fram þær aðgerðir sem þarf til að koma þjóðinni af stað aftur. Það þarf að setja gömlu bankanna í þrot og það þarf að finna leið fyrir skuldara á Íslandi til að vinna sig út úr þeim óskapnaði sem Útrásanýðingarnir komu þjóðinni í, svo mikið er alla veganna ljóst.
Hvað varðar 36.gr. og 38 gr.laga nr.7 frá 1936 þarf bara vilja stjórnvalda til að lesa þessi lög með þeim hætti sem þau segja til um, ekki bara lánadrottinshlið það þarf að skoða skuldarahliðina líka, því ef ekkert verður gert með þá hlið fara allar eignirnar á afskriftareikning og þjóðin lóð beint á hausinn.
Nei og aftur nei, ekki gera ekki neitt, aftur
L-listinn hefur verið að segja frá okkar aðaláherlsum nú fyrir kosningar en þetta atriði að komast til botns í þessu bankahruni verður einnig eitt af þeim atriðum sem við komum til með að leggja mikla áherslu á. Það er ekki eðlilegt að 25 lánahlutfall fjármálafyrirtækis séu veitt til 10 einstaklinga sem eru einnig eigendur af fjármálafyrirtækinu. Þetta verður að rannsaka og hefja undirbúning að þeirri rannsókn sem allra fyrst.
Það er bara einkennilegt að við sem almenningur í landinu verðum láttnir greiða þessa óreiðu Útrásarníðinganna, ef svo verður spái ég því að hér muni sjóða uppúr á næstu misserum ef ekki fyrr, ef ekkert verður aðgert í þeim efnum.
Ég veit ekki hvað við þurfum að horfa mikið til alþjóðavæðingarinnar, því þar sýnist mér að hver höndin sé upp á móti hvor annarri eins og er, þannig að ég á ekki von á mikilli alþjóðavæðingu á næstu 10 til 15 árum, sem getur bæði orðið til góðs fyrir okkur og einnig verið slæmar fréttir fyrir svo smáa þjóð sem Ísland er í raun og veru á alþjóðlegann mælikvarða. Mér sýnist að þessi svokallaði alþjóðavæðing sé mest í því að bjarga málum heima fyrir frekar en að leggjast á eitt með það að markmiði að koma þessum vandamálum aftur fyrir okkur, þar sem hagsmunir þeirra eru það mismunandi, þannig að ef aðgerðir í Frakklandi hafa slæm áhrif í Bretlandi og aðgerðir í Bretlandi slæm áhrif í Frakklandi. Þeir geta bara ekki komið sér saman um neinar aðgerðir sem koma til með að duga í baráttunni við þessa kreppu.
En við ættum að geta komist í gegnum þetta með því að fara að gera eitthvað sem fyrst en ekki vera að skoða þessi mál betur, AÐGERÐIR STRAX, áður en það verður um seinann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook
10.3.2009 | 18:38
Aðskilnaður fjármálaþjónustu
Hrun fjármálakerfisins í dag sem er að eiga sér stað á alþjóðavísu er ekki ósvipað hruninu í kreppunni miklu sem hófst árið 1930. Verið er að þjóðnýta banka víðsvegar í heiminum með beinum og óbeinum hætti. Þrátt fyrir slíkar aðgerðir er vantraust meðal almennings til þeirra það miklar að það hefði þótt vera óhugsandi fyrir einungis nokkrum mánuðum síðan. Eins og í kreppunni miklu hafa margir sem lögðu fé sitt í banka í þeirri góðu trú að þar væri það öruggt hafa einnig tapað mikla fjármuni.
Árið 1933 voru lög, sem almennt er vitnað í sem Glass-Steagall Act, samþykkt í Bandaríkjunum sem kváðu um aðskilnað í fjármálaþjónustu á fjárfestingarbankastarfsemi og hefðbundinni bankaþjónustu.
Þessi lög stóðu í 66 ár en voru afnuminn árið 1999. Þau þóttu þá vera gamaldags enda töldu menn sig orðið vita mun betur hvernig stýra ætti hagkerfum og áhættustýringu innan banka.
Þetta er að mínu mati ein af helstu örsökum þess að margir bankar heims fóru offörum í starfsemi sinni með þeirri afleiðingu að þeir eru í dag tæknilega gjaldþrota. Hægt er að benda á nokkra aðra þætti svo sem mikinn samdrátt í efnahagslífinu, flata vaxtakúrfu í Bandaríkjunum síðustu ár (sem neyðir fjármálafyrirtæki að taka meiri áhættu í stað hefðbundina lána) og blöndu af óskynsamri vaxta- og hagstefnu.
Sé rýnt í sögubækur fjármálafræðinnar er aftur á móti ljóst að helsti örsakavaldur slíkra hamfara sem nú ganga yfir er auðvelt aðgengi að fé og misnotkun á slíku aðgengi. Fyrst í stað liðkar auðvelt aðgengi að fjármagni einstaklingum og fyrirtækjum að koma framkvæmdum í verk.
Sé slík stefna hins vegar of lengi látin viðgangast er það oftast ávísun á harðri lendingu. Með því að opna dyrnar á að sameina hefðbundna bankastarfsemi og fjárfestingastarfsemi voru innlán, sem í áratugi var að mestu varið í hefðbundin útlán, sett í að fjármagna miklu flóknari og áhættumeiri verkefni. Augljóst er að fjármálaeftirlit heimsins höfðu ekki bolmagn til að fylgjast með og bregðast við þessari þróun. Rétt er að benda á að sú þróun átti sér stað á afar fáum árum og aðlögunartímabilið því nánast ekkert frá því að blanda fjárfestinga- og hefðbundina bankastarfsemi hófst og þegar að ljóst var að í óefni væri komið.
Aftur til 1999
Nú þarf aftur að aðskilja rekstur fjármálastofnanna; það er ekki eftir neinu að bíða. Bankar sem sinna einstaklingsþjónustu eiga að njóta ríkisábyrgðar. Þeirra hlutverk er fyrst og fremst að þjónusta einstaklinga landsins og smærri fyrirtæki. Fjárfestingarbankar, sem einblína á stóra lánapakka og fjárfestingar, eiga ekki að njóta hennar. Fjárfestar sem að koma með fé í slík verkefni bera einir sér ábyrgð á nauðsynlegu aðhaldi í rekstri þeirra. Slík endurskipulagning eykur gegnsæi og einfaldleika í rekstri aðskildrar fjármálaþjónustu. Útlánatöp bankanna snýr fyrst og fremst að lánum til stórra fyrirtækja og áhættufjárfestingum, sem þýðir að erfitt er að átta sig á nettó eign bankanna og gerir endurreisn þeirra erfiðari fyrir vikið.
Með þessu næst á nýjan leik nauðsynlegt traust almennings gagnvart bönkum. Með auknu trausti innstæðueigenda lækkar ávöxtunarkrafan sem þeir gera til fjármagns þeirra í bönkunum (hún væri miklu hærri í dag ef ríkisábyrgð væri ekki ótakmörkuð). Lækkun ávöxtunarkröfunnar veitti svigrúm til vaxtalækkana og væri þannig fyrsta jákvæða skrefið í langan tíma.Slíkir bankar væru í þjóðareign og ríkisafskipti takmörkuð við slíkar fjármálastofnanir.
Rekstur
Skýrari markmið nást með einfaldara rekstrarformi. Hagnaður af banka sem sinnir einungis einstaklingsþjónustu er augljóslega minni. Skiptir þar litlu frá hvaða sjónarhorni mælingar eru. Áhættan og óvissan í slíkri starfsemi er aftur á móti minni.
Auk þess hefur það loðað við rekstur fjármálafyrirtækja að reynt hefur verið að ná í stór viðskipti með því að fórna hagnaði af minni viðskiptum, og raunar einnig í hina áttina. Könnun sem var gerð um síðustu aldamót leiddi það meðal annars í ljós að þýskir bankar voru að mynda hagnað af aðeins helmingi þess fjármagns sem þeir voru að meðhöndla. Það var stöðugt verið að veita kjör til viðskiptavina sem vonast var til að skilaði sér með öðrum hætti. Þær vonir gengu sjaldan eftir.
Slík stefna hefur verið í gangi hérlendis. Áhættuálag til stærri fjárfestingafélaga hefur verið ótrúlega lágt undanfarin ár. Í ársbyrjun 2007 var áhættuálag á skuldabréfum FL Group rétt rúmlega 1% hærra en ríkisskuldabréf með svipaðan líftíma. Þetta átti sér stað þrátt fyrir að efnahagsreikningur félagsins sýndi augljóslega hversu gírað félagið var. Þessi hugsun, að krefjast álags sem ekki var í samræmi við áhættu í rekstri, var ríkjandi hjá fjármálafyrirtækjum gagnvart stórum fyrirtækjum. Bitist var um að fá þau í viðskipti þrátt fyrir að efnahagsreikningar þeirra ættu að hafa verið klár vísbending um að áhættuálagið ætti að vera hærra.
Þessi nálgun gildir enn gagnvart einstaklingum. Hægt er enn að fá húsnæðislán á betri vöxtum en þeir vextir sem fást á bókum vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Þetta hefur verið svona síðan að bankar og sparisjóðir fóru inn á íbúðalánamarkað haustið 2004. Nú þegar að flestir bankar eru í ríkiseigu hefur dæmið skekkst enn frekar. Hægt er að fá verðtryggt lán til íbúðakaupa og borga um það bil 4,5% í vexti. Sami einstaklingur getur aftur á móti átt samsvarandi upphæð inn á vaxtareikningi og fengið þar í kringum 7,5% ávöxtun. Sé um að ræða fjárhæð uppá 5 milljónir króna er sá einstaklingur að hagnast um 150 þúsund krónur á ári og fær frestun skatts af því í þokkabót. Þetta eru ágætis rök fyrir því að greiða ekki upp húsnæðislán með viðbótarlífeyrissparnaði.
Það þarf kannski ekki að aðskilja fjármálaþjónustu til að breytta ofangreindu. Aðskilnaður myndi þó auðvelda röksemdafærslu fyrir slíkum breytingum.
Fjárfestingarbankar
Ólíkt tillögum samræmingarnefndar undir forystu Mats Josefsson varðandi stofnun eignarhaldsfélags í eigu ríkisins væri nýr fjárfestingabanki stofnaður. Slíkur banki ætti aftur á móti að fara sem fyrst úr ríkiseigu og vera settur í hendur fjárfesta. Hlutafé væri gefið út fyrir hönd bankans sem snéri fyrst og fremst að rekstri þess. Fjárfestingarverkefni innan bankans væru fjármögnuð sjálfsstætt með tilliti til atvinnugreina og jafnvel einstakra verkefna. Skilgreining á hlutverki bankans er einföld, arðsemissjónarmið ráða för. Pólitísk afskipti verða alltaf hluti af slíkri starfsemi, en með þessu móti væri þau eins takmörkuð og unnt er í smáu þjóðfélagi sem Ísland er.
Það er raunar líklegt að slíkur rekstur verði í framtíðinni meira í formi sjálfsstæðra eignarhaldsfélaga sem skilgreina sig sem fjárfestingabanka. Ofangreind hugmynd um fjárfestingabanka má útleiða með þeim hætti að þau fyrirtæki sem héldu velli einungis vegna þjóðfélagslegs ábata væru þar áfram inni, þá félög sem hefðu framtíð fyrir sér frá fjárfestingarsjónarmiði einu færu í sjálfsstæð fjárfestingarfélög. Slík félög sérhæfa sig á ýmsum sviðum og veita nauðsynlegt aðhald á fjárfestingum innan þeirra raða.
Ríkisbanki erlendur banki sparisjóðir
Aðskilnaður í fjármálaþjónustu gæti einnig greitt fyrir því að erlendir kröfuhafar hafi áhuga á því að eignast hlut í íslenskum bönkum. Þess ber að geta að líklegast hafa þeir engan áhuga á því, þeir eru hreinlega neyddir til þess því enginn annar valkostur er í myndinni. Margir kröfuhafar hreinlega mega ekki eiga í hlutafélögum og slíkt samþykki myndi þá væntanlega flokkast sem force majore, það er afleiðingar sem samningsaðilar gátu ekki borið ábyrgð á og því ekki um annað að ræða í óvenjulegri stöðu.
Verði erlendir kröfuhafar neyddir til að eignast hlut í íslenskum banka er eðlilegast að slíkur banki væri í smásölustarfsemi þar sem tryggt væri að ekki væri verið að lána til stærri aðila sem kröfuhafarnir augljóslega hefðu lítin áhuga á að lána. Sé starfsemi bankans óbreytt þyrftu erlendu kröfuhafarnir stöðugt að fylgjast með hvert væri verið að lána fjármagnið. Væri starfsemin einskorðuð við einstaklingsþjónustu þyrfti síður að hafa áhyggjur af því og hagnaður slíks banka skilaði sér smám saman aftur til þeirra.
Einn banki gæti verið settur í eigu erlendra kröfuhafa og hinir tveir bankarnir sameinaðir sem einn ríkisbanki. Ekki mæli ég með því að það jafngildi fjölda uppsagna. Í stað þess að senda fjölda manns á atvinnuleysisskrá er skynsamlegra að nýta fólk í að aðstoða einstaklinga og minni fyrirtæki við að greiða úr vandamálum sínum í stað þess að vonast eftir einhverri lausn frá alþingi sem næði að ganga fyrir alla.
Að lokum þarf að tryggja að starfsemi sparisjóða haldist traust. Þrátt fyrir að kostnaður við að halda starfsemi þeirra gangandi sé hár þá er hann lítill miðað við fórnarkostnaðinn sem hlytist við að láta þá fara í þrot.Með þessu er samkeppni fjármálafyrirtækja á einstaklingsmarkaði tryggð og aukin möguleiki á því að erlendir kröfuhafar samþykki að fá banka upp í kröfur sínar.
Breytt mynd óhjákvæmileg
Í framhaldi af þeim umskiptum sem átt hafa sér stað í fjármálaheiminum undanfarna mánuði er óhjákvæmilegt að mikil endurskipulagning sé framundan. Ísland hefur tekið mestu dýfuna niður á við. Við höfum aftur á móti bestu tækifærin að umbylta kerfinu með skynsömum hætti. Látum tækifærið ekki renna úr höndum okkar.
Már Wolfgang Mixa
http://mixa.blog.is/blog/mixa/entry/813494/