10.3.2009 | 18:37
Stéttskipting kjósenda og valdhroki fjórflokksins
Fulltrúar gömlu flokkanna fara mikinn yfir að L listinn skuli ekki viðhafa prófkjör, forval eða aðra helgisiði flokksveldisins við röðun á lista. Skilaboðin eru skýr, - framboð má ekki vera án flokksvalds. Eðlilega ógna nýjar hugmyndir alltaf ríkjandi siðum og hugsunarhætti.
Nýjast í þessari umræðu voru ummæli ritstjóra Smugunnar í Kastljósþætti á þá leið að framboð okkar væri ólýðræðislegt vegna þess að hér hefðu bundist saman menn með ákveðna sýn í stærsta deilumáli þjóðarinnar, ESB inngöngunni!
Afbökun lýðræðis
Í flokki þeim sem stendur næst Björgu Evu Erlendsdóttur ritstjóra Smugunnar, VG, er viðhaft forval sem örfá hundruð kjósenda fá aðgang að. Þessir kjósendur hafa í reynd margfaldan atkvæðisrétt á við óbreytta kjósendur og í hendi sér að slátra þingmönnum og jafnvel ráðherrum með 100 atkvæðum til eða frá. Slík urðu nú örlög eins stofnenda VG og vafamál að þar hafi einu sinni þurft 100 atkvæði til að ýta Kolbrúnu Halldórsdóttur út af þingi. Þessir sérstöku og flokksbundnu kjósendur eru með margfaldan atkvæðarétt hinna óbreyttu og flokkslausu.
Við höfum áþreifanlega séð í vetur hvernig flokkarnir telja þingmenn vera sína séreign, afstöðu þeirra eins og hvert annað góss sem hægt er að ráðskast með á á landsfundum og ef það dugar ekki til er beitt ráðherraræði og foringjavaldi. Þessu höfum við á L listanum talað gegn og erum ekki einir í þeim hópi að efast um að stjórnmálaflokkar séu lýðræðislegar stofnanir.
Allir sem þekkja til stjórnmálaflokka vita að þeir vinna eftir úreltu og marglagskiptu þrepalýðræði. Svipað kerfi er notað í stéttarfélögum og nokkrum öðrum miður lýðræðislegum stofnunum. Galli þessa kerfis er að það virkar aldrei neðan frá grasrótinni og upp heldur jafnan ofan frá toppi og niður. Eina leiðin til að tryggja lýðræði með fulltrúakjöri er að hafa þrepið aðeins eitt og kjósendur þannig alla á einum palli. Stéttaskipting kjósenda er eðlilega andstæð lýðræði.
Leið lýðræðisins
En það er fráleitt bæði sleppt og haldið. Við á L listanum getum ekki bæði boðið flokkakerfinu byrgin og búið til nýjan flokk. Við látum ekki hræða okkur til að búa til milliliði milli kjósenda og frambjóðenda. Okkar leið að þessu marki er sú nýbreytni að stofna til framboða án þess að efna til flokksstofnunar. Þar með erum við ekki með það sýndarlýðræði í pípunum sem gerir ráð fyrir forvali nokkur hundruð ofurkjósenda eða fulltrúavali 500 kjördæmisþingsgesta. Við einfaldlega bjóðum okkur fram og leggjum lýðræðið í hendur á þeirri athöfn einni sem stendur undir því heiti að vera lýðræðisleg. Það eru alþingiskosningarnar.
Sá sem hér ritar hefur kjörgengi og hefur á liðnum vetri fengið nokkur þúsund áskoranir um að bjóða sig fram til áframhaldandi þingsetu. Ég hef ákveðið að gera það og við þá ákvörðun beiti ég engan gerræði eða ólýðræðislegum vinnubrögðum eins og ritstjóri Smugunnar reynir að gefa í skyn. Ég mun meira að segja hlífa kjósendum við þeirri áraun sem mikið auglýsinga- og bæklingaflóð er óneitanlega í kjölfar kosninga og hefi ásamt félögum mínum ákveðið að taka ekki við neinum fjárstyrkjum við framboð þetta.
Núverandi kosningakerfi er sniðið að þörfum stjórnmálaflokka og ekki létt verk fyrir einstaklinga að fara fram í þessu kerfi. Eina leiðin til að gera það er að bindast samtökum við aðra einstaklinga í öðrum kjördæmum og við deilum þá með okkur atkvæðum úr uppbótapottinum og komum þannig í veg fyrir að hið flokksvæna kosningakerfi drepi atkvæðum kjósenda L listans á dreif.
Einræðisherrrarnir
Gagnrýnendur L listans hafa mikið gert úr þeirri yfirlýsingu undirritaðs að vitaskuld hljóti oddvitar listanna að hafa úrslitaatkvæði um hverjir sitji á þeim í kerfi sem þessu. Það eru hreinskilin skilaboð og í fullu samræmi við það að listar þessir eru leið okkar til að koma með einstaklingsframboð inn í núverandi kerfi.
Það er aftur á móti mikill útúrsnúningur að þessu úrslitavaldi fylgi að einn maður raði hér upp lista eftir eigin geðþótta. Í öllum tilvikum er um að ræða nána samvinnu samherja þar sem hlustað er á sjónarmið allra. En það eru engar þær atkvæðastofnanir til í flokkslausu framboði til að skera úr um ágreiningsmál. Það er líka mjög vandséð hvernig fámennar innaflokks atkvæðagreiðslur, eins og til dæmis fóru fram í Framsóknarflokki í Reykjavík, tengjast raunverulegu lýðræði.
Allt tal um ólýðræðislega einræðistilburði er þessvegna broslegt og sýnir betur en annað að gömlu flokkarnir óttast hið nýja framboð L listans. Fulltrúi fjórflokksins notar tækifærið og reynir með drýldni að kalla það ólýðræðislegt þegar einhver utan þeirrar elítu vill upp á dekk. Það er dapurlegt og hlusta á slíkan málflutning nú þegar fjórflokkurinn hefur brugðist þjóðinni og gerir samt kröfu um að halda öllum völdum óskertum.
Ólýðræðisleg ESB afstaða!
Hitt atriðið sem Björg Eva Erlendsdóttir nefndi í Kastljósviðtali og fleiri fjórflokkafulltrúar hafa hnotið um er að innan L listans er samstaða um afstöðuna til ESB. Björg Eva Erlendsdóttir vill að L listinn sé eins og Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri Græn og Framsókn með jöfnum höndum ESB sinna og ESB andstæðinga. Síðan ganga kjósendur að kjörborðinu eftir að hafa hlustað á einn af frambjóðendum viðkomandi flokks en lenda alveg óvart í að atkvæði þeirra skolar inn manni með algerlega andstæða skoðun inn á þing.
Hér er lýðræðislegur réttur kjósanda til að vita hvað hann er að kjósa algerlega fótumtroðinn í flokkskerfi sem reynir að þóknast öllum á kjördegi, eiga bland í poka þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi.
Í samstöðu kjósenda L listans í ESB málum er ekki fólgin nein skoðanakúgun enda er L listinn ekki opin stjórnmálasamtök sem t.d. ESB sinnar geta gengið inn í. L listinn er framboðslisti. ESB sinnarnir hafa verið duglegir að leggja undir sig forvalsslagi hjá VG og nálgast meirihluta í bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Ef lýðræðið er raunverulega fyrir kjósendur en ekki hinar furðulegu og óræðu flokksvélar er full þörf á því að kjósendur eigi val kjördag og geti þar kosið með fullveldinu og móti ESB daðrinu. Þar er L listanum einum treystandi.
Persónukjör leysir lýðræðishallann
Eina varanlega leiðin til að leysa lýðræðishallan sem er í núverandi kosningakerfi er svo að koma á persónukjöri en það verður ekki gert með þeirri afbökun að búa til nýjar leikreglur korteri fyrir kosningar. Og allra síst ef þær leikreglur eru þannig að þær frekar útiloka ný framboð eða gera þeim erfiðara fyrir.
Raunverulegu persónukjöri er hægt að koma á í einmenningskjördæmum, í landskjördæmi og með ýmsum öðrum þekktum leiðum. Ef fara á þá leið sem núverandi stjórnarflokkar boða að bjóða frambjóðendum að tefla fram óröðuðum listum þá er lykilatriði að frambjóðendur geti líkt og í prófkjörum flokkanna tilgreint hversu ofarlega þeir vilja fara.
Annars er komið kerfi sem hentar bara hinum gömlu og vel smurðu flokksvélum því engir nema þeir geta átt í handraðanum tugi frambjóðenda sem allir eru til í að setjast í fyrsta sæti ef svo ber undir. Ný framboð eru þar með dæmd til að hafna þessari nýju lýðræðisleið og sú niðurstaða verður síðan notuð gegn framboði þeirra.
Ritstjóri Smugunnar hafði mjög á orði að hún skildi ekki hvað hennar gömlu skólafélagar væru að fara með því að nýta sér rétt sinn til framboðs. Það er von mín að grein þessi skerpi skilning á framboði okkar og við getum notað kosningabaráttuna til að deila um stjórnmál en það sé hér með afgreitt að rétturinn til að bjóða fram sé ekki einkaeign gömlu flokkanna.
Bjarni Harðarson
http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/1218
10.3.2009 | 18:34
Hugsjónir og þor, L-listinn.
Meðfylgjandi er fengið að láni hjá www.vald.org: "Með hverjum deginum sem líður virðist líklegra að Ísland rísi ekki úr öskunni sem betra land. Glæpsamleg verðtrygging lána og okurvextir sjá til þess að fólkið í landinuog þá sérstaklega yngri kynslóðirnarverða rassskelltar duglega á meðan gömlu kerfiskarlarnir og kerlingarnar hreiðra um sig við kjötkatlana og sjá til þess að raunveruleg verðmæti leiti á gamlar slóðir. Verður martröðin að veruleika? Þannig spyr Vinni á spjallsíðunni www.malefnin.com og hann heldur áfram:
Hugsið ykkur:
Það er komið sumar og kreppan bítur fast, vonleysi og drungi færist yfir samfélagið og fjölmiðlar eru uppfullir af fréttum af uppsögnum, gjaldþrotum og öðrum hörmungum. Alþingi er í sumarfríi og ný ríkisstjórn er að setjast við kjötkatlana eftir kosningarnar. Þar mun hún sitja næstu 4 árin í ró og næði. Fjórflokkurinn kom nefnilega alveg óskaddaður út úr kosningunum. Sumarið og haustið fer í að raða flokksgæðingum á garðann. Óopinber stjórnarsáttmáli innifelur að ekki megi rugga bátnum um of með því að fara rækilega í saumana á því sem gerðist hér í aðdraganda kreppunnar. Annar stjórnarflokkurinn, eða jafnvel báðir eiga nefnilega nægilegt magn af óhreinum þvotti úr fortíðinni sem ekki má viðra.
Það er mikið líf í kringum stjórnmálaflokkanna sem fengu andlitslyftingu í kosningunum með því að skipta út fáeinum þreyttum andlitum. Þetta mikla líf helgast af því að fyrir liggur sjaldgæft tækifæri fyrir stjórnmálastéttina, áhangendur hennar og velgjörðamenn. Tækifærið felst í því verkefni að endurskipuleggja eignarhaldið á íslandi, bönkum, flestum fyrirtækjum landsins, að ógleymdum náttúruauðlindunum - virkjunum, fiskimiðunum o.s. frv. Oft hefur verið handagangur í öskjunni á Íslandi að komast í gott talsamband við stjórnmálamenn eða til áhrifa innan flokkanna en aldrei sem nú. Enda ekki á hverjum degi sem eignarhald á heilli þjóð er endurskipulagt. Hagsmunaklíkurnar að tjaldabaki eru því allar á hjólum og varla unnt að finna óbrenglaðar fréttir um nokkurn skapaðan hlut í áróðursflóðinu þar sem reynt verður að stýra hugmyndum í réttar áttir; þ.e.a.s þannig að auðurinn renni enn og einu sinni í rétta vasa.
Að sjálfsögðu hefur ekki náðst nein niðurstaða í eflingu lýðræðisins og endurskoðun stjórnarskrár er í nefnd. Nýja Ísland er líka komið í nefnd.
Þetta er martröð martröð sem getur hæglega ræst.
Fjöldi Íslendinga gerir sér fulla grein fyrir að hér vantar nýtt stjórnmálaafl strax, nýja breiðfylkingu hugsjónamanna sem hefur það eitt markmið að hreinsa út sorann. Þessi fylking þarf að koma 1015 mönnum á þing til þess að geta veitt nægilegt aðhald áður en landinu verður aftur stolið. Það sem núna blasir við er landflótti unga fólksins og hrikalega misskipt samfélag þar sem valdaklíkan afhendir sjálfri sér allt bitastætt á silfurfati. Svo setningin fræga í Animal Farm sé endursögð og heimfærð upp á nýju ríkisbankana, þá eru allar skuldir jafnar en sumar skuldir eru jafnari en aðrar. Fáir virðast hirða um myllusteininn sem hangir um háls heimilanna, heldur eru þau eru keyrð betur í kaf á degi hverjum. En þeir sem geta togað í rétta spotta og látið afskrifa hjá sjálfum sér verða kóngar morgundagsins.
Þetta er ekki grunnur sem heiðarlegt og réttsýnt fólk vill byggja á nýtt þjóðfélag.
10.3.2009 | 18:33
Kreppulánasjóður?
Ástæðurnar eru margar. Sumir voru komnir í þrot áður en kreppan skall á. Aðrir hafa lent í fjárhagslegum erfiðleikum eftir atvinnumissi. Og enn aðrir eru að kikna undan margföldun skulda sinna vegna vaxtastefnunnar, verðtryggingarinnar eða erlendra lána sem þeir tóku, oft í góðri trú, samkvæmt ráðum ráðgjafa bankanna.
En hvað er hægt að gera frekar til bjargar þeim sem nú eru að missa aleiguna? Fram hefur komið tillaga hjá framsóknarmönnum um flatan 20% niðurskurð skulda allra einstaklinga og fyrirtækja.
Önnur lausn er að skoða stöðu hvers og eins og aðstoða hann og fjölskyldu hans eftir þörfum. Sú leið var farin í kreppunni miklu kringum 1930 hér á landi. Þá var settur á fót svokallaður Kreppulánasjóður. Sjóðurinn keypti eignir þeirra sem ekki gátu staðið í skilum en rak þá ekki burt frá himilum sínum. Þegar batnaði í ári var fólki gert mögulegt að kaupa aftur eignir sínar. Þetta átti til dæmis við um bújarðir víða um land. Ábúendur leigðu jarðirnar og keyptu þær svo smátt og smátt aftur. Þannig hljóp ríkið undir bagga til langs tíma og takmarkaði tap einstaklinga og ríkis.
Nú er ef til vill rétti tíminn til að endurvekja Kreppulánasjóðinn. Kreppulánasjóðurinn gæti orðið heimilum til bjargar og komið fótunum undir efnahag einstaklinga á ný. Endanlegt markmið væri að ríkið seldi aftur eignirnar til fyrri eigenda. En þar til um hægðist myndi starfsemi sjóðsins skapa illa stöddum heimilum skjól og umfram allt varðveita sæmd einstaklinganna og reisn og eignir.
Þórhallur Heimisson
http://thorhallurheimisson.blog.is/blog/thorhallurheimisson/entry/824986/
10.3.2009 | 18:21
Sjálfstæðisflokkur stefnir á ESB. L-listinn skýr valkostur gegn því !
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vara-formaður Sjálfstæðisflokksins,
sagði í þætti Bylgjunnar á Sprengisandi í gær, að allt benti til að eftir
landsfund flokksins myndi hann opna á aðildarviðræður við Evrópu-
sambandið. Ef það yrði niðurstaðan, yrði það grundvallarbreyting á
stefnu flokksins í Evrópumálum. Mjög sterk öfl innan flokksins kalla
á aðild að ESB, og fjölmargir sjálfstæðismenn tala fyrir því í dag.
Þannig er Bjarni Benediktsson sem er sterklega talinn næsti formað-
ur flokksins, fylgjandi aðildarviðræðum, og svo er um ýmsa þingmenn
flokksins, eins og Jón Magnússon, sem er hlynntur aðild að Evrópu-
sambandinu.
Fyrir okkur þjóðfrelsis-og fullveldissinna er nánast ENGUM flokki
á Alþingi Íslendinga lengur treystandi í Evrópumálum, þótt meirihluti
þjóðarinnar sé andvíg aðild. Þannig er Framsókn orðin ESB-sinnaður
krataflokkur eins og Samfylkingin. Vinstri-græn tala fyrir aðildarvið-
ræðum og þar með umsókn að ESB, því aðildarviðræður geta ekki
orðið nema sótt verðu um aðild. Þá syðja Vinstri grænir breytingu á
stjórnarskránni um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem auðveldar mjög að
breyta fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar eftir kosningar, og þar
með aðild að ESB. Frjálslyndir styðja þá breytingu, en formaður þing-
flokks þeirra var til skamms tíma yfirlýstur ESB-sinni. Og þannig mætti
lengi telja.
Því er það ánægjuefni fyrir okkur þjóðfrelsis-og fullveldissinna að
tilkynnt hefur verið um framboð, sem ALFARIÐ hafnar öllum hugmynd-
um um aðildarviðræður og umsókn að Evrópusambandinu. Framboð
sem vill standa vörð um sjálfstæði og fullveldi Íslands. Framboð
hófsamra BORGARLEGRA GILDA. Framboð sem ESB-andstæðingar
geta 100% treyst. - Framboð L-listans.
Innan grasrótar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er mikil
andstaða við ESB-aðild. Sú grasrót á nú að koma til liðs við L-list-
ann. - Það er svo míkið í húfi, því fullveldið og sjálfstæði þjóðar-
innar er forsenda fyrir endurreisn efnahags hennar á næstu
árum.
Guðmundur Jónas Kristjánsson
http://zumann.blog.is/blog/zumann/entry/823389/
7.3.2009 | 21:06
Rót vandans
eftir Friðrik Daníelsson
Árás Bretastjórnar 8.10. þegar tvö af stærstu fyrirtækjum Íslendinga og bankakerfi voru leidd til aftöku kallar á heildarendurskoðun á samskiptum okkar við ESB-lönd. Rót vandans liggur í samningi við ESB sem kvað á um fjórfrelsi; í flutningi vöru, fólks, þjónustu og fjármagns. Íslendingar héldu að ESB væri alvara með fjórfrelsinu, að íslensk fyrirtæki fengju sama rétt til að starfa í ESB og þarlend. Þetta hefur nú reynst tálsýn. Með fjórfrelsissamningnum afsöluðu landsmenn sér einnig rétti til ákvarðana í eigin málum. Stjórnvöld okkar hættu að hafa vakandi auga með hag landsins enda veigamiklar ákvarðanir komnar í hendur ESB sem sendir okkur tilskipanir sem við höfum ekkert um að segja. Samningurinn, sem 52% Alþingis samþykkti 12.1.1993, kom m.a. af stað útrásinni margfrægu. Við áttuðum okkur ekki á að fjórfrelsið átti aðeins að vera eins og ESB vildi og hefur það hagrætt samningnum að vild (t.d um ábyrgðir á bönkum) til þess að þjóna hagsmunum sinna aðalmeðlima. Samningurinn var í raun fyrirframsamþykki á geðþóttaákvarðanir ESB, ígildi undirskriftar Íslands á óútfylltar ávísanir. Bretastjórn hefur nú fyllt út í þá stærstu hingað til, vill innleysa hana á reikning íslensku þjóðarinnar og vísar í samninginn. Það byggir reyndar aðeins á þeirra túlkun á honum en ekki okkar. Við héldum að fjórfrelsið, þ.á.m. leyfi okkar fyrirtækja til að starfa í friði í ESB, væri gert af heilindum og mundi standa eins og stafur á bók. Útrásarfólk okkar var í góðri trú.
Sem betur fer erum við að mörgu leyti með traustari efnahagsgrunn en lönd ESB þó 8.10.-árásin hafi rekið fjármálakerfið í strand. Við eigum góð fyrirtæki og miklar auðlindir sem við kunnum að nýta, gjaldeyristekjur okkar duga meir en vel fyrir okkar þörfum. Við eigum gjaldmiðil sem við getum notað að vild þó að hann hafi orðið fyrir banatilræði í fjármálamiðstöð Evrópu. Núna getum við t.d. aukið peningamagn í umferð hér innanlands til að koma starfsemi í landinu í eðlilegt horf, það gætum við ekki með annarra manna peningum. Við getum ákveðið sjálf, og með samvinnu við vinveitt lönd, hvernig gjaldeyrisviðskiptum okkar er háttað. Þó að frelsið sé fagurt verður það fjötur þegar það opnar leið óvinveittum ríkisstjórnum eða alþjóðlegum bröskurum að gera árásir.
Við búum langt frá öðrum ESB-þjóðum, okkar lífsbarátta kallar á aðferðir sem mótast af aðstæðum hér. Við þurfum því að ráðast að rót vandans og taka okkar mál í eigin hendur, þannig hefur okkur alltaf gengið best. Lærdómurinn af 8.10.-árásinni verður okkur verðmætari en nemur peningatapinu með tímanum þó að hörmungarnar núna spilli lífi margra. Við höfum áður þraukað aldalöng harðæri og lifað af, þetta harðæri verður stutt þó árásin hafi verið hatrömm.
Höfundur er verkfræðingur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2009 kl. 19:59 | Slóð | Facebook
7.3.2009 | 21:03
Ég á ekki krónu!
eftir Friðrik Daníelsson
Sögðu konurnar í síldinni á Dalvík þegar við strákarnir reyndum að klæmast við þær. Mér kemur þetta í hug þegar ég fylgist með umræðunni um landsmálin þessa vetrardaga. Svo virðist sem margir Íslendingar sjái ekki lengur fyrir sér neina framtíð fyrir sjálfstætt þjóðlíf á Íslandi, slík er svartsýnin orðin eftir bankahrunið. Sumir segja að Íslandi sé aðeins einn kostur í þeirri erfiðu efnahagstöðu sem komin er; að ganga í ESB og taka upp evru. Með því yrðum við þátttakendur í stóru ríkjasambandi sem mundi auka velsæld og stöðugleika. Margir segja að við séum hvort sem er þegnar ESB með EES-samningnum og litlu breyti hvort við göngum að fullu inn, stækkunarstjóri ESB segir að hægt sé að vippa okkur inn fyrir af því að með EES höfum við þegar tekið upp meirihlutann af tilskipunum ESB. Ein helsta röksemd margra fyrir aðild að ESB er að íslenska kónan sé ónýtur gjaldmiðill og að við verðum að ganga í ESB til að fá að nota evruna.
Lítum nánar á þessar röksemdir. Velsæld í ESB hefur alla tíð verið minni en á Íslandi. Meðan við höfum haft fulla stjórn eigin mála hefur gengið ágætlega að halda þróuninni gangandi þó hinar þekktu íslensku sveiflur séu oft erfiðar. Stöðugleiki er rangnefni á því ástandi sem ríkir í ESB, stöðnun er réttara, þar hefur ekki orðið nein markverð fjölgun starfa í verðmætaskapandi atvinnustarfsemi í marga áratugi. Mikil atvinnuuppbygging hefur verið hér. En hér á Íslandi er annar en mikilvægari stöðugleiki; hér er elsta lýðræðisríki Norður-Evrópu en ESB-löndin hafa búið við stríð eða ólög af og til öldum saman meðan Ísland hefur verið réttarríki. En stöðugleiki í verðlagi og gengi gjaldmiðils er ekki hér á landi, hefur ekki verið og verður ekki í nánustu framtíð. Þannig stöðugleiki skapast af stærð og fjölbreytni efnahagslífsins sem ekki er til staðar hér.
Rétt er að með EES-samningnum höfum við verið undirorpin tilskipunum ESB. En bæði er að hægt er að semja um breytingar á EES-samningnum, hann er uppsegjanlegur með stuttum fyrirvara og með honum tökum við ekki upp allar tilskipanir ESB sem yrði með fullri aðild. Mun erfiðara er að losna úr fullri ESB-aðild og kjörin eru ekki nema að litlu leyti samningsatriði og hefur ESB ekki sýnt lýðræðislegum vilja aðildarlanda um innri málefni mikla virðingu.
Af öllum röksemdum fyrir aðild að ESB er sú um nauðsyn á upptöku evru þó byggð á mestri og alvarlegastri vanþekkingu. Íslenska krónan hefur þjónað okkur vel í hundrað og tuttugu ár og verið forsenda þess að hægt hefur verið að halda hér gangandi sjálfstæðum fjárafla og arðbærum atvinnurekstri á vegum landsmanna sjálfra. Krónan lifði af tvær heimsstyrjaldir þegar efnahagskerfi Evrópu hrundu og sumir evrópskir gjaldmiðlar fuðruðu upp. Eigin gjaldmiðill gerði að verkum að hægt var að aðlaga gjaldeyrisviðskipti, gengi og peningamagn við ástand í útflutningsatvinnuvegum og viðskiptaumhverfi hverju sinni. Hefðum við þurft að nota erlenda mynt hefðu stórir hlutar atvinnulífsins þurft að loka, erlend stórfyrirtæki hirt hreyturnar og innflutningur nauðsynja stöðvast. Íslenskur útflutningur er enn fábreyttur þannig að hér verða miklu meiri sveiflur en í stærri hagkerfum með fjölbreyttari fjárafla. Forsendan fyrir því að geta búið við þetta ástand er að ráða yfir eigin gjaldmiðli, hann er hægt að nota til að vinna á móti sveiflunum. Á mannamáli þýðir þetta t.d. að ef við værum með evru og miklir erfiðleikar yrðu í sjávarútvegi, álframleiðslu og ferðageiranum, yrði fjöldagjaldþrot í þessum greinum og meðfylgjandi fjöldaatvinnuleysi sem leiða mundi til mikillar erlendrar lántöku og efnahagserfiðleika. Með eigin gjaldmiðli er hægt að halda atvinnuvegunum gangandi með því að láta gengið falla þannig að atvinnuvegirnir fengju svipaðar tekjur áfram í krónum og gætu haldið fólki áfram í vinnu. Einnig er hægt að blása lífi í innlenda atvinnu með því að auka magn peninga í umferð, það er stundum kallað peningaprentun og sumir halda að það sé einhvers konar svindl en getur verið nauðsynleg aðgerð og er iðkuð víða á sjálfstæðum gjaldmiðilssvæðum. Notuðum við aftur á móti evru sem gjaldmiðil þyrfti að fá fjármagnið að láni erlendis og endurgreiða síðar sem gæti keyrt almannasjóði í þrot. Eigin peningaprentun verður aðeins að innlendri skuld við Seðlabankann og gerir því sjaldan verra en að auka verðbólguna eitthvað en rekur ekki þjóðarbúið í strand. Margir halda að verðbólgan sé rót alls ills, svo er ekki þó óðaverðbólga sé slæm. Þar sem er uppbygging er yfirleitt verðbólga, þar sem er verðhjöðnun er hrörnun.
Upptaka erlends gjaldmiðils hefur oft gefist illa litlum þjóðum. Ástæðan fyrir lélegu gengi íslensku krónunnar nú er árásin á íslenska bankakerfið. Þessi árás er einsdæmi og ekki von að gjaldmiðill okkar sé burðugur fyrst á eftir. Þegar við höfum náð aftur tökum á hérlendu fjármálalífi jafnar krónan sig og verður áfram það efnahagsstjórntæki sem við þurfum á að halda til þess að geta búið í fámennu landi þar sem útflutningstekjur standa ekki mörgum fótum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2009 kl. 19:59 | Slóð | Facebook
7.3.2009 | 21:00
Efnahagsstríð
eftir Friðrik Daníelsson
Þegar eignabólan tók að hjaðna í fyrrasumar grunaði menn ekki að hún mundi springa með hvelli ári síðar og leiða efnahagsáfall yfir heiminn. Ekki grunaði Íslendinga heldur að þeir yrðu komnir í efnahagsstríð í októrber en þann 8. gerðist það að ríkisstjórn hennar hátignar frysti eigur Landsbankans í Bretlandi á grundvelli varna gegn skeggjuðum hellisbúum með sprengjur. Þá var einn banki eftir sem ríkisstjórn hennar hátignar hafði heldur engar vöflur með, hrifsaði hann og seldi góðar eignir hans. Þar með hafði ríkisstjórn hennar hátignar ekki aðeins tekið tvo banka heldur hrakið heilt bankakerfi einnar þjóðar í strand. Ráðherrar hennar hátignar létu líka út ganga að þessi þjóð væri svikótt og í raun komin í þrot. Þetta var ekki hægt að misskilja: Efnahagsleg stríðsyfirlýsing á hendur Íslandi, í trássi við samninga og fjórfrelsi og í andstöðu við lögmál siðaðra manna. Þeim mörgu hérlendis sem virða bresku þjóðina var illa brugðið.
Þetta stríð gæti orðið erfitt og langvinnt eins og fyrri stríð við ríkisstjórn hennar hátignar og þarf að vinda bráðan bug að leita bóta fyrir tröllvaxna eignaspillingu og óhróður hennar. En við erum ekki á vonar völ, eigum enn vini meðal þjóða, auðlindirnar okkar og landbúnað sem tilskipanirnar hafa ekki enn náð að lóga. Og Alþingi virðist einhuga að leiða landsmenn úr hremmingunum. Ríkisstjórnin er sterk og svo vel vill til að forsætisráðherra okkar veit hvað hann er að gera og hrekkur ekki upp úr hjólförunum þótt garmar geyji í hverri gátt.
En það eru ekki bara viðsjárverðir tímar framundan í efnahagnum heldur ekki síður í sjálfstæðismálum. Megum við þar nokkuð af Svíum frændum læra, þeir fengu bankakreppu uppúr 1990 sem leiddi til þess að þeir lentu í ESB, sá gerningur hefur lengi verið í andstöðu við sænsku þjóðina en úr ESB á enginn afturkvæmt. Hér rymja nú raddir um að ganga í ESB enn rámar en áður. Þeir sem það vilja virðast halda að við eigum eitthvað betra í vændum með inngöngu en með EES samningnum við ESB sem hefur leitt okkur til að trúa fyrirheitum um frelsi en endar með að lönd í ESB gera sig sek um stórfellda spillingu íslenskra eigna og mannorðs. Lærdómurinn af efnahagsárás ríkisstjórnar hennar hátignar á Ísland bendir til annars.
Höfundur er verkfræðingur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2009 kl. 20:00 | Slóð | Facebook