Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.3.2009 | 21:06
Rót vandans
eftir Friðrik Daníelsson
Árás Bretastjórnar 8.10. þegar tvö af stærstu fyrirtækjum Íslendinga og bankakerfi voru leidd til aftöku kallar á heildarendurskoðun á samskiptum okkar við ESB-lönd. Rót vandans liggur í samningi við ESB sem kvað á um fjórfrelsi; í flutningi vöru, fólks, þjónustu og fjármagns. Íslendingar héldu að ESB væri alvara með fjórfrelsinu, að íslensk fyrirtæki fengju sama rétt til að starfa í ESB og þarlend. Þetta hefur nú reynst tálsýn. Með fjórfrelsissamningnum afsöluðu landsmenn sér einnig rétti til ákvarðana í eigin málum. Stjórnvöld okkar hættu að hafa vakandi auga með hag landsins enda veigamiklar ákvarðanir komnar í hendur ESB sem sendir okkur tilskipanir sem við höfum ekkert um að segja. Samningurinn, sem 52% Alþingis samþykkti 12.1.1993, kom m.a. af stað útrásinni margfrægu. Við áttuðum okkur ekki á að fjórfrelsið átti aðeins að vera eins og ESB vildi og hefur það hagrætt samningnum að vild (t.d um ábyrgðir á bönkum) til þess að þjóna hagsmunum sinna aðalmeðlima. Samningurinn var í raun fyrirframsamþykki á geðþóttaákvarðanir ESB, ígildi undirskriftar Íslands á óútfylltar ávísanir. Bretastjórn hefur nú fyllt út í þá stærstu hingað til, vill innleysa hana á reikning íslensku þjóðarinnar og vísar í samninginn. Það byggir reyndar aðeins á þeirra túlkun á honum en ekki okkar. Við héldum að fjórfrelsið, þ.á.m. leyfi okkar fyrirtækja til að starfa í friði í ESB, væri gert af heilindum og mundi standa eins og stafur á bók. Útrásarfólk okkar var í góðri trú.
Sem betur fer erum við að mörgu leyti með traustari efnahagsgrunn en lönd ESB þó 8.10.-árásin hafi rekið fjármálakerfið í strand. Við eigum góð fyrirtæki og miklar auðlindir sem við kunnum að nýta, gjaldeyristekjur okkar duga meir en vel fyrir okkar þörfum. Við eigum gjaldmiðil sem við getum notað að vild þó að hann hafi orðið fyrir banatilræði í fjármálamiðstöð Evrópu. Núna getum við t.d. aukið peningamagn í umferð hér innanlands til að koma starfsemi í landinu í eðlilegt horf, það gætum við ekki með annarra manna peningum. Við getum ákveðið sjálf, og með samvinnu við vinveitt lönd, hvernig gjaldeyrisviðskiptum okkar er háttað. Þó að frelsið sé fagurt verður það fjötur þegar það opnar leið óvinveittum ríkisstjórnum eða alþjóðlegum bröskurum að gera árásir.
Við búum langt frá öðrum ESB-þjóðum, okkar lífsbarátta kallar á aðferðir sem mótast af aðstæðum hér. Við þurfum því að ráðast að rót vandans og taka okkar mál í eigin hendur, þannig hefur okkur alltaf gengið best. Lærdómurinn af 8.10.-árásinni verður okkur verðmætari en nemur peningatapinu með tímanum þó að hörmungarnar núna spilli lífi margra. Við höfum áður þraukað aldalöng harðæri og lifað af, þetta harðæri verður stutt þó árásin hafi verið hatrömm.
Höfundur er verkfræðingur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2009 kl. 19:59 | Slóð | Facebook
7.3.2009 | 21:03
Ég á ekki krónu!
eftir Friðrik Daníelsson
Sögðu konurnar í síldinni á Dalvík þegar við strákarnir reyndum að klæmast við þær. Mér kemur þetta í hug þegar ég fylgist með umræðunni um landsmálin þessa vetrardaga. Svo virðist sem margir Íslendingar sjái ekki lengur fyrir sér neina framtíð fyrir sjálfstætt þjóðlíf á Íslandi, slík er svartsýnin orðin eftir bankahrunið. Sumir segja að Íslandi sé aðeins einn kostur í þeirri erfiðu efnahagstöðu sem komin er; að ganga í ESB og taka upp evru. Með því yrðum við þátttakendur í stóru ríkjasambandi sem mundi auka velsæld og stöðugleika. Margir segja að við séum hvort sem er þegnar ESB með EES-samningnum og litlu breyti hvort við göngum að fullu inn, stækkunarstjóri ESB segir að hægt sé að vippa okkur inn fyrir af því að með EES höfum við þegar tekið upp meirihlutann af tilskipunum ESB. Ein helsta röksemd margra fyrir aðild að ESB er að íslenska kónan sé ónýtur gjaldmiðill og að við verðum að ganga í ESB til að fá að nota evruna.
Lítum nánar á þessar röksemdir. Velsæld í ESB hefur alla tíð verið minni en á Íslandi. Meðan við höfum haft fulla stjórn eigin mála hefur gengið ágætlega að halda þróuninni gangandi þó hinar þekktu íslensku sveiflur séu oft erfiðar. Stöðugleiki er rangnefni á því ástandi sem ríkir í ESB, stöðnun er réttara, þar hefur ekki orðið nein markverð fjölgun starfa í verðmætaskapandi atvinnustarfsemi í marga áratugi. Mikil atvinnuuppbygging hefur verið hér. En hér á Íslandi er annar en mikilvægari stöðugleiki; hér er elsta lýðræðisríki Norður-Evrópu en ESB-löndin hafa búið við stríð eða ólög af og til öldum saman meðan Ísland hefur verið réttarríki. En stöðugleiki í verðlagi og gengi gjaldmiðils er ekki hér á landi, hefur ekki verið og verður ekki í nánustu framtíð. Þannig stöðugleiki skapast af stærð og fjölbreytni efnahagslífsins sem ekki er til staðar hér.
Rétt er að með EES-samningnum höfum við verið undirorpin tilskipunum ESB. En bæði er að hægt er að semja um breytingar á EES-samningnum, hann er uppsegjanlegur með stuttum fyrirvara og með honum tökum við ekki upp allar tilskipanir ESB sem yrði með fullri aðild. Mun erfiðara er að losna úr fullri ESB-aðild og kjörin eru ekki nema að litlu leyti samningsatriði og hefur ESB ekki sýnt lýðræðislegum vilja aðildarlanda um innri málefni mikla virðingu.
Af öllum röksemdum fyrir aðild að ESB er sú um nauðsyn á upptöku evru þó byggð á mestri og alvarlegastri vanþekkingu. Íslenska krónan hefur þjónað okkur vel í hundrað og tuttugu ár og verið forsenda þess að hægt hefur verið að halda hér gangandi sjálfstæðum fjárafla og arðbærum atvinnurekstri á vegum landsmanna sjálfra. Krónan lifði af tvær heimsstyrjaldir þegar efnahagskerfi Evrópu hrundu og sumir evrópskir gjaldmiðlar fuðruðu upp. Eigin gjaldmiðill gerði að verkum að hægt var að aðlaga gjaldeyrisviðskipti, gengi og peningamagn við ástand í útflutningsatvinnuvegum og viðskiptaumhverfi hverju sinni. Hefðum við þurft að nota erlenda mynt hefðu stórir hlutar atvinnulífsins þurft að loka, erlend stórfyrirtæki hirt hreyturnar og innflutningur nauðsynja stöðvast. Íslenskur útflutningur er enn fábreyttur þannig að hér verða miklu meiri sveiflur en í stærri hagkerfum með fjölbreyttari fjárafla. Forsendan fyrir því að geta búið við þetta ástand er að ráða yfir eigin gjaldmiðli, hann er hægt að nota til að vinna á móti sveiflunum. Á mannamáli þýðir þetta t.d. að ef við værum með evru og miklir erfiðleikar yrðu í sjávarútvegi, álframleiðslu og ferðageiranum, yrði fjöldagjaldþrot í þessum greinum og meðfylgjandi fjöldaatvinnuleysi sem leiða mundi til mikillar erlendrar lántöku og efnahagserfiðleika. Með eigin gjaldmiðli er hægt að halda atvinnuvegunum gangandi með því að láta gengið falla þannig að atvinnuvegirnir fengju svipaðar tekjur áfram í krónum og gætu haldið fólki áfram í vinnu. Einnig er hægt að blása lífi í innlenda atvinnu með því að auka magn peninga í umferð, það er stundum kallað peningaprentun og sumir halda að það sé einhvers konar svindl en getur verið nauðsynleg aðgerð og er iðkuð víða á sjálfstæðum gjaldmiðilssvæðum. Notuðum við aftur á móti evru sem gjaldmiðil þyrfti að fá fjármagnið að láni erlendis og endurgreiða síðar sem gæti keyrt almannasjóði í þrot. Eigin peningaprentun verður aðeins að innlendri skuld við Seðlabankann og gerir því sjaldan verra en að auka verðbólguna eitthvað en rekur ekki þjóðarbúið í strand. Margir halda að verðbólgan sé rót alls ills, svo er ekki þó óðaverðbólga sé slæm. Þar sem er uppbygging er yfirleitt verðbólga, þar sem er verðhjöðnun er hrörnun.
Upptaka erlends gjaldmiðils hefur oft gefist illa litlum þjóðum. Ástæðan fyrir lélegu gengi íslensku krónunnar nú er árásin á íslenska bankakerfið. Þessi árás er einsdæmi og ekki von að gjaldmiðill okkar sé burðugur fyrst á eftir. Þegar við höfum náð aftur tökum á hérlendu fjármálalífi jafnar krónan sig og verður áfram það efnahagsstjórntæki sem við þurfum á að halda til þess að geta búið í fámennu landi þar sem útflutningstekjur standa ekki mörgum fótum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2009 kl. 19:59 | Slóð | Facebook
7.3.2009 | 21:00
Efnahagsstríð
eftir Friðrik Daníelsson
Þegar eignabólan tók að hjaðna í fyrrasumar grunaði menn ekki að hún mundi springa með hvelli ári síðar og leiða efnahagsáfall yfir heiminn. Ekki grunaði Íslendinga heldur að þeir yrðu komnir í efnahagsstríð í októrber en þann 8. gerðist það að ríkisstjórn hennar hátignar frysti eigur Landsbankans í Bretlandi á grundvelli varna gegn skeggjuðum hellisbúum með sprengjur. Þá var einn banki eftir sem ríkisstjórn hennar hátignar hafði heldur engar vöflur með, hrifsaði hann og seldi góðar eignir hans. Þar með hafði ríkisstjórn hennar hátignar ekki aðeins tekið tvo banka heldur hrakið heilt bankakerfi einnar þjóðar í strand. Ráðherrar hennar hátignar létu líka út ganga að þessi þjóð væri svikótt og í raun komin í þrot. Þetta var ekki hægt að misskilja: Efnahagsleg stríðsyfirlýsing á hendur Íslandi, í trássi við samninga og fjórfrelsi og í andstöðu við lögmál siðaðra manna. Þeim mörgu hérlendis sem virða bresku þjóðina var illa brugðið.
Þetta stríð gæti orðið erfitt og langvinnt eins og fyrri stríð við ríkisstjórn hennar hátignar og þarf að vinda bráðan bug að leita bóta fyrir tröllvaxna eignaspillingu og óhróður hennar. En við erum ekki á vonar völ, eigum enn vini meðal þjóða, auðlindirnar okkar og landbúnað sem tilskipanirnar hafa ekki enn náð að lóga. Og Alþingi virðist einhuga að leiða landsmenn úr hremmingunum. Ríkisstjórnin er sterk og svo vel vill til að forsætisráðherra okkar veit hvað hann er að gera og hrekkur ekki upp úr hjólförunum þótt garmar geyji í hverri gátt.
En það eru ekki bara viðsjárverðir tímar framundan í efnahagnum heldur ekki síður í sjálfstæðismálum. Megum við þar nokkuð af Svíum frændum læra, þeir fengu bankakreppu uppúr 1990 sem leiddi til þess að þeir lentu í ESB, sá gerningur hefur lengi verið í andstöðu við sænsku þjóðina en úr ESB á enginn afturkvæmt. Hér rymja nú raddir um að ganga í ESB enn rámar en áður. Þeir sem það vilja virðast halda að við eigum eitthvað betra í vændum með inngöngu en með EES samningnum við ESB sem hefur leitt okkur til að trúa fyrirheitum um frelsi en endar með að lönd í ESB gera sig sek um stórfellda spillingu íslenskra eigna og mannorðs. Lærdómurinn af efnahagsárás ríkisstjórnar hennar hátignar á Ísland bendir til annars.
Höfundur er verkfræðingur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2009 kl. 20:00 | Slóð | Facebook