Neikvæðir nafnvextir og tímastimplaðir seðlar

Gunnar Kristinn Þórðarson skrifar:

 

GunnarKristinnÞótt fræðimenn og fjölmiðlar vilji ekki tala um það, þá er nokkurra ára tímabil verðhjöðnunar á næsta leiti. Nánast allir í heiminum eru að búa sig undir þetta eða verjast þessu nema við Íslendingar. Bjartsýnismenn segja að aðgerðir Obama séu að virka þar sem peningaprentunin er að skila sér út í verðlagið í Bandaríkjunum og hlutabréf hækka, þegar þetta er skrifað.
 
Fleiri og meira sannfærandi rök lúta að því að um sé að ræða sápukúlu sem á brátt eftir að springa. ARM og Alt-a íbúðarveðlánavöndlanir eru komnir í vanskil í Bandaríkjunum upp á 1,7 billjón (1.700 milljarða!) dala en þeir voru seldir víðsvegar um heiminn. Það eru um 700 billjónir dala í hlutafleiðum og tryggingum í hagkerfi heimsins og AIG sýnir sig sem óseðjandi svarthol á bandarískt almannafé. General Motors og Chrysler verða án nokkurs vafa færðir í gjaldþrotaskipti með ófyrirséðum afleiðingum fyrir iðnað í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu, þ.m.t. áliðnað á Íslandi.
 
Talið er að fjármálakerfi Evrópu þurfi 25 billjónir dala til að endurfjármagna sig á næstu fjórum árum, og eru ábyrgir menn að segja að fjármálakerfi heimsins sé í raun hrunið. Líklegt er að S-Evrópa reyni að slíta sig úr evrubandalaginu á meðan A- Evrópa reynir að komast inn í það. Evran er of há fyrir S-Evrópu og A-Evrópa er tæknilega gjaldþrota. Þetta gerist á meðan lánadrottnar A-Evrópu eru flestir frá N-Evrópu, eins og Austurríki, Belgíu, Svíþjóð og jafnvel Noregi.
 
Nú er svo komið að skuldir ríkja eru svo ofboðslegar að fjöldagjaldþrot heilu ríkjanna og stórfyrirtækja eru nær óhjákvæmileg og skilar það sér í gríðarlegu atvinnuleysi. Atvinnuleysi kallar á stórminnkaða eftirspurn sem svo leiðir til verðhjöðnunar. Þetta er vítahringurinn sem innsiglar nokkra ára verðhjöðnunartímabil á hnattrænum skala.
 
Viðbrögðin við verðhjöðnun eru aðallega prentun gjaldmiðla og lækkun stýrivaxta. Við Íslendingar eigum eftir að gera hvort tveggja, en umræður eru á meðal hagrýna um annan valkost. Vangaveltur eru um að koma á neikvæðum nafnvöxtum á bankainnlán og tímastimplaða seðla. Þetta þýðir að bankar taka þóknun fyrir að hýsa fjármuni almennings, og seðlar missa verðmæti sitt ef þeim er ekki eytt innan tiltekins tíma. Þetta er býsna róttæk aðgerð, en gæti verið óhjákvæmileg. Það besta við þessa aðgerð er að hún kemur ekki niður á þeim sem lítinn pening eiga eða hafa lág laun. Þetta úrræði neyðir aðeins þá sem töluverðan eða mikinn pening eiga inni á bókum til að fjárfesta í hagkerfinu; í hlutabréfum eða öðrum eignum sem vænlegar eru til ávöxtunar. Þannig má knýja hjól atvinnulífsins áfram og atvinnusköpun.
 
Það er ekki vænlegt að þeir sem eiga enga peninga séu að eyða þeim, það liggur í orðanna hljóðan. Hins vegar er hagkerfið og atvinnulífið botnfrosið vegna þess að þeir sem eiga peninga eru ekki að fjárfesta eða eyða. Ég vil hér með varpa þessari vangaveltu til hagrýna þjóðarinnar því umræða verður að skapast um komandi ár, sem eiga eftir að verða mögur í meira lagi.

 

Gunnar Kristinn Þórðarson skipar 2. sæti fyrir L-lista fullveldissinna í Reykjavík Norður

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband