Endurreisnarbanki.

Fiskveiðasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Iðnlánasjóður eru horfin. Bönkum þjóðarinnar, Útvegsbanka, Búnaðarbaka og Landsbanka var líka sóað. Reyturnar, nýju bankarnir, hrúgur misjafnra pappíra, eru komnar í fang þjóðarinnar í skiptameðferð. Nýju bankarnir hafa enn ekki fengið fé frá ríkinu til að koma efnahagslífinu á réttan kjöl. Enn er ekki búið að gera upp efnahagsreikninga þeirra enda erfitt að meta eignir eftir sprungnar eignabólur og ekki víst að uppgjörið komist nálægt raunveruleikanum þó að menn sitji yfir því mánuði í viðbót. Og það sem veldur mikilli óvissu er að nýju bankarnir gætu fengið á sig málsóknir og veit enginn nú hvernig því mun lykta. Menn spyrja sig því: Er skynsamlegt að íslenska ríkið leggi þeim til alla 385 milljarðana, sem áætlað hefur verið í endurfjármögnunina, ef eigna- og skuldastaða þeirra er óviss og þeir þurfa að eyða kröftunum í varnarstríð og eiga á hættu að tapa máli og greiða tröllvaxnar bætur? Það væri ekki góð búmennska meðan enginn veit hverskyns hít er verið að ausa í. Þeir gætu líka lent í eigu hvers sem er og gæti landið staðið uppi með bankakerfi sem ekki uppfyllir allar þarfir landsmanna.

Þjóðin getur ekki beðið lengur eftir því að lánsfé verði aðgengilegt hér í eðlilegu magni. Atvinnulífið og fjölskyldurnar þurfa fé, það vantar banka sem getur hafið eðlilega lánastarfsemi. Nýr banki gæti strax fengið hluta af 385 milljörðunum og hafið nauðsynlega útlánastarfsemi, sérstaklega til atvinnuuppbyggingar. Hættulegar hugmyndir eru á kreiki í hrunflokkunum um að afhenda eignarhlut í orkuverum til þeirra sem bröskuðu með íslensku krónuna þegar glámskyggnir menn ætluðu að gera hana að alþjóðagjaldmiðli. Endurreisnarbanki gæti forðað virkjunum og veiðikvóta frá að lenda í eigu auðmanna. Aðgerðalömun stjórnvalda er greinilega viðvarandi, strax eftir hrun hefðu þau átt að leggja drög að stofnun endurreisnarbanka til þess að koma eðlilegri útlánastarfsemi í gang. Það er enn ekki of seint.

 

Friðrik Daníelsson

Höfundur skipar 4. sæti L-lista fullveldissinna í Reykjavík norður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband