Að fara í viðræður við Evrópusambandið

Birtist á bloggsíðu Atla Harðarsonar.

 

Um þessar mundir reyna þeir sem eru æstir í að koma Íslandi inn í Evrópusambandið að fá sitt fram með því að tala um einhvers konar könnunarviðræður. Þeir segja gjarna eitthvað á þá leið að rétt sé að fara í viðræður við Sambandið, sjá hvað út úr þeim kemur og leggja niðurstöðuna svo í dóm kjósenda. Gjarna er látið að því liggja að ef kjósendur segja nei verði allt eins og áður var.

Þessi tillaga kann að hljóma vel. Hver getur verið á móti því að ræða málin og leyfa almennum kjósendum svo að hafa síðasta orðið? Er þetta ekki allt ósköp lýðræðislegt, sætt og krúttlegt og í anda samræðustjórnmála?

Eða er kannski ekki allt sem sýnist?

Viðræður um „sérkjör“ við inngöngu í Evrópusambandið fara ekki fram fyrr en eftir að ríki hefur sótt um aðild. Umsókn um aðild þýðir að stjórn ríkisins óskar eftir henni. Þessar umtöluðu „könnunarviðræður“ munu því ekki fara fram nema ríkisstjórn Íslands óski formlega eftir að landið gangi í Sambandið. Sú hugmynd að ríkisstjórnin geti verið hlutlaus þar til niðurstaða viðræðna liggur fyrir er ekki raunhæf.

Ef Ísland sækir um aðild og umsókn er samþykkt af Sambandinu og aðildarríkjum þess þá verður sjálfsagt rætt um alls konar mál eins og 200 mílna lögsöguna. Vel er líklegt að í þeim viðræðum verði reynt að velta við hverjum steini í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hjá stofnunum þess. Hvað út úr því kemur veit enginn en það er barnaskapur að halda að allt geti lagst aftur í sama far ef aðild að Sambandinu verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar flókin mál eru skoðuð upp á nýtt kemur jafnan eitthvað á daginn sem menn skilja á ólíkan veg og þykir rétt að endurskoða. Við „samningaborðið“ verður Ísland með afleita stöðu ef gagnaðilinn reynir að nota tækifærið og færa eitthvað til okkur í óhag. Þá er raunar eins víst að „könnunarviðræðurnar“ endi með að valið standi milli þess að ganga í Sambandið eða enda með verri stöðu en áður.

Þetta hygg ég að þeir sem virðast hvað blíðmálastir þegar þeir tala um viðræður og þjóðaratkvæði viti vel. Mér heyrist vera falskur tónn í málflutningi þeirra þegar þeir reyna telja fólki trú um að tillaga sín sé hlutlaus í þeim skilningi að ef eftir henni verði farið þá eigi kjósendur á endanum val milli inngöngu í Sambandið og óbreyttrar stöðu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hvernig væri að láta af þessum óheilindum og koma hreint fram? Sambandssinnar ættu að sjá sóma sinn í að leggja einfaldlega til að sótt verði um aðild og hætta að fela sig á bak við barnalegar hugmyndir um „könnunarviðræður.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband