Enn mótmælt á Austurvelli.

Mótmæli gegn IceSave samningunum halda áfram í dag.  Boðað hefur verið til mótmælastöðu á Austurvelli frá 14:00 og fram eftir degi.

Samtök Fullveldissinna hvetja þá sem ætla að taka þátt í mótmælum að hafa þau eins friðsöm og hægt er.


Mótmælastaða á Austurvelli

Boðað hefur verið til mótmælastöðu á Austurvelli kl.15:00 í dag á meðan þingheimur ræðir um Icesave samningana.
Bráðabrigðastjórn samtakanna hvetur fólk til að nýta sér sinn rétt á friðsömum mótmælum ef það svo kýs.

f.h. Bráðabrigðastjórnar

Fundaherferðin byrjar

Nú um helgina verða fyrstu fundir í fundaherferð okkar um landið.

Á laugardagskvöldið 6. júní verðum við á Sunnlenska bókakaffinu, Austurvegi 22, Selfossi frá 20:00 til 22:00
Á sunnudagskvöldið 7. júní verðum við í Árhúsum, Rangárbökkum, Hellu frá 20:00 til 22:00

Þetta eru óformlegir spjallfundir sem við fáum að halda með góðfúslegu leyfi staðahaldara, gegn því að við verslum af þeim kaffi og aðrar veitingar.
Þau ykkar sem hafa áhuga á að koma á þessa fundi og heyra í okkur er það velkomið, og þið megið endilega láta fólk á þessu svæði sem þið teljið að gæti haft áhuga vita af fundunum.  Því fleiri sem koma, því betra.
 
 

Við þjóðaratkvæðagreiðslu skyldi horfa til sögunnar.

Axel Þór Kolbeinsson skrifar á bloggsíðu sína:

 

Þegar til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur um stór mál sem hafa í för með sér varanlega breytingu á stjórnskipulagi þjóðar er eðlilegt að líta til þeirrar síðustu.

Síðasta þjóðaratkvæðagreiðsla um málefni sem breytti stjórnskipulagi á Íslandi var þjóðaratkvæðagreiðslan um afnám sambandslaganna frá 1918.  Í 18.gr. þeirra laga er farið yfir þau skilyrði sem þurfti svo sátt gæti verið um svo stórt og víðtækt mál...

 

Smellið hér til að lesa meira.

 

 


Aðildarviðræður við ESB mundu rýra traust á Íslandi erlendis

Eftir Friðrik Daníelsson

 

Líklegt er að í aðildarsamning við ESB fengjust tímabundnar undanþágur eða aðlögunartími að ýmsum kvöðum sambandsins. En til frambúðar litið munu lög og reglur ESB gilda hér sem annars staðar í sambandinu. Ísland kæmi ekki lengur fram sem fullvalda ríki, hvorki gagnvart eigin þegnum né í samskiptum við aðrar þjóðir, s.s. í samningum um sameiginlega fiskstofna eða viðskiptsamningum við önnur ríki. Hinn nýi fríverslunarsamningur sem Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss (EFTA) hafa nú gert við Kanada mundi til dæmis falla úr gildi, en hann markar tímamót í nýþróun viðskiptasamninga okkar við Vesturheim sem hafa setið á hakanum árum saman en eru forsenda þess að Ísland geti verið í fararbroddi í tækni- og atvinnuþróun.

Auðlindir nýttar fyrir ESB

ESB þróast í átt að bandaríkjum þar sem völd yfir auðlindum aðildarríkja eru að færast til miðstjórnarkerfis sambandsins. Fiskimiðin eru þegar undir yfirstjórn ESB og mundu fiskimið Íslands líka færast þar undir með aðild og þau verða nýtt með hag ESB að leiðarljósi. Stærstur hluti teknanna af fiskimiðunum mun þannig með tímanum færast til ESB sem þýðir mikið gjaldeyristap fyrir íslenska þjóðarbúið og mikla hrörnun íslensks sjávarútvegs, sem er gjöfulasta útflutningsgrein Íslands. Svíar eru að missa óskoraðan yfirráðarétt yfir sinni stóru auðlind, skóginum, og ESB hefur þegar forræði á nýtingu sænskra úrannáma. Náttúruauðlindir gömlu heimsveldanna sem ráða ESB eru á þrotum, s.s. málmar, olía og gas. Vaxandi orkukreppa er að þróast í ESB þar sem uppbygging orkuvera hefur verið vanrækt í áratugi og ennþá eru uppi áætlanir um að loka orkuverum. Nú er þó að renna upp fyrir ESB að kjarnorkuvinnsla er eina raunhæfa leiðin til eigin orkuframleiðslu en mestallt nýtilegt úran ESB er í Svíþjóð. Augljóst er að ESB verður annars að auka innflutning jarðefnaeldsneytis og raforku.

Orkulindir á forræði ESB

Ný stjórnarskrá ESB (heitir núna Lissabonsáttmálinn) kveður á um að ESB fái yfirstjórn á orkulindum aðildarlanda sem skulu nýttar í þágu sambandsins. Í grein 100(1) er kveðið á um að ESB muni tryggja afhendingu orku verði skortur á henni í aðildarlöndum. Í grein 176A segir að tryggja skuli virkni orkumarkaðar og öryggi í orkuafhendingu innan ESB. Einnig skulu orkukerfi landanna tengd saman. Þetta þýðir að ESB mun hafa yfirstjórn á hvar og hvernig raforka, olía og gas er afhent. ESB gæti því ákveðið að Ísland verði að afhenda orku til ESB verði Ísland meðlimur. Þetta þýðir til framtíðar litið að hagkvæmir virkjanakostir á Íslandi yrðu nýttir til framleiðslu raforku fyrir ESB. Rafmagnið yrði leitt til ESB gegnum sæstrengi, voru gerðar áætlanir um það fyrir einum og hálfum áratug en voru lagðar á hilluna þá. Árangurinn yrði að frekari atvinnusköpun af orkulindum hér yrði lítil og orkufrekur iðnaður landsins mundi smám saman hrörna. Mögulegar olíu- og gaslindir yrðu sömuleiðis nýttar með hag ESB að leiðarljósi og mikilvægar ákvarðarnir um markaði, stjórnun og skattlagningu færast til ESB.

Aðildarsamningur marklítið skjal

Samningsatriði sem samþykkt eru í aðildarsamningi gætu þurft að víkja fyrir lögum og reglum sem í framtíðinni verða sett af ESB. Með inngöngu í ESB fær sambandið löggjafarvald yfir aðildarlandinu, yfirsterkara valdi landsins, sem þýðir að eftir samningsundirritun geta forsendur hans breyst og þar með efndir. Ágreiningsatriði færu til æðsta dómsvalds sem yrði þá ekki í aðildarlandinu heldur ESB-dómstóllinn sem dæmir að lögum ESB. Bretar sömdu um sérákvæði um sín fiskimið sem voru afnumin með dómi; vinnumarkaðskerfi Svía á nú í vök að verjast, svo dæmi séu tekin. Áhrif Íslands á löggjöf og stjórnvaldsaðgerðir ESB yrðu hverfandi og fengi annar samningsaðilinn, ESB, því í raun sjálfdæmi um efndir samningsins. Aðildarsamningur við ESB yrði ekki samningur tveggja bærra aðila með jafnræði og því marklítill.

Aðildarviðræður mundu rýra traust

Fjárfestar og samstarfsaðilar Íslendinga við nýtingu auðlindanna vita að efnahagur landsins byggist á einkaafnotarétti og fullu forræði þjóðarinnar á þessum auðlindum. Traust þessara aðila á Íslandi þarf að haldast til þess að uppbyggingin geti haldið áfram. Aðildarviðræður við ESB yrðu túlkaðar sem uppgjöf þeirrar stefnu að íslenska ríkið hafi óskoraðan umráðarétt yfir auðlindunum og sem yfirlýsing um að Ísland ætli að gefa frá sér yfirstjórn fiskimiða og orkulinda til erlends yfirvalds. Þetta mundi þýða að erlendir samstarfsaðilar, sem flestir koma frá Vesturheimi en ekki ESB, mundu síður taka þátt í verkefnum og uppbyggingu hérlendis á forsendum Íslendinga. Samningar yrðu erfiðari og ekki að fullu á forræði íslenskra aðila né á grunni íslenskra laga. Ísland nýtur trausts sem rótgróið og friðsælt fyrsta heims réttarríki frá fornu fari, mun rótgrónara en helstu ESB-lönd. Það er ein ástæða þess að erlendir aðilar fjárfesta hér. Skattlagning auðlindanna yrði ekki heldur að fullu á íslensku forræði gengi landið í ESB sem veikja mundi traust á getu íslenska ríkisins til að standa við skuldbindingar sínar.

Höfundur er verkfræðingur.

Birtist í Morgunblaðinu 29. maí 2009

 


Samtök fullveldissinna stofnuð.

Fyrr í þessum mánuði voru Samtök fullveldissinna stofnuð.  Fram að stofnfundi sem fyrirhugað er að halda í Ágúst var útnefnd þriggja manna bráðabrigða stjórn.

Samtökin hafa í hyggju að vinna á pólitískum grunni og stefna að framboði til Alþingis.

Meðal helstu baráttumála er að standa vörð um fullveldi Íslands, breytingar á lagaumhverfi fjármálastofnanna, endurskoðun hagstjórnar, aukin sjálfbærni þjóðarinnar og aukin samskipti við þjóðir heimsins með gerð fríverslunarsamninga og tvíhliða viðskiptasamninga.

Fulltrúar samtakana munu ferðast um landið í sumar til að kynna starf samtakanna og hugmyndir ásamt því að bjóða fólki að taka þátt í starfi okkar og móta sameiginlega grunnstefnu.  Tilkynnt verður um dagsetningar og staðsetningar þessara funda á þessari vefsíðu ásamt því að vefpóstur verður sendur til þeirra sem eru á póstlista okkar.

Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig á póstlista eru beðnir um að senda tilkynningu um það á l.listinn@gmail.com

Einnig er hægt að lesa um hugmyndir okkar í þessari skrá (pdf).

Í aðdraganda þingkosninga

Af gefnu tilefni vill L-listi fullveldissinna taka það fram að listinn styður ekkert þeirra stjórnmálaafla sem eru í framboði til Alþingis, en hvetur stuðningsmenn sína til að taka sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á eigin sannfæringu nú sem fyrr.

L-listi fullveldissinna hefur ekki hætt sinni starfsemi, en hefur haldið sig til hlés eftir að ljóst var að ekkert yrði úr framboði okkar fyrir þessar Alþingiskosningar til að leyfa þeim listum sem fyrirséð var að myndu bjóða fram að koma sínum sjónarmiðum betur á framfæri.  Þeir sem standa að L-lista fullveldissinna hafa í hyggju að vinna áfram sem stjórnmálaafl og grasrótarhreyfing og útiloka ekki framboð í næstu Alþingiskosningum.

Við hvetjum þá sem hafa áhuga að starfa með okkur að gerast bloggvinir okkar, eða senda tölvupóst á l.listinn@gmail.com

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband